146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

tóbaksvarnir.

431. mál
[18:13]
Horfa

Andri Þór Sturluson (P):

Herra forseti. Ég ætla að reyna að hafa þetta stutt, svona eins og líf stórreykingamannsins. Það er margt sem angrar mig við þetta frumvarp hæstv. heilbrigðisráðherra. Það er, eins og aðrir hafa nefnt, orðanotkunin, rafsígarettur. Þetta er ekkert eins og sígarettur. Þetta er annars eðlis. Það sem pirraði mig líka við lestur þessa frumvarps og hvernig það er unnið er áherslan á eitthvert samráð við ÁTVR. Nú er það ríkið sem selur tóbak. Tóbak heldur uppi áfengisverslun ríkisins, segja sumir. Það má eiginlega segja að rafrettan sé til höfuðs ÁTVR. Þegar ég hugsa aðeins til baka, hafandi reykt lengi sjálfur, er það alltaf þannig að þegar eitthvað kemur á markað til að hjálpa manni að losna við tóbaksdjöfulinn torveldar ríkið manni það. Þegar maður skipti yfir í neftóbakið til að hætta að reykja hækkaði það fljótlega upp úr öllu valdi. Sennilega vorum við of mörg sem ákváðum að hætta að reykja og nota nef- eða munntóbak á sama tíma. Mér finnst þetta eins. Nú er komið eitthvað sem gæti verið alveg geggjað og þá er strax stigið á það.

Þetta frumvarp torveldar baráttuna gegn tóbaki. Það er verið að tala um unga fólkið sem getur verið áhrifagjarnt, það sé hugsanlega að nota rafrettur án þess að hafa nokkurn tíma reykt. Mér finnst furðulegt ef við ætlum að herða löggjöfina þannig að við ráðumst á eitthvað sem unglingunum finnst töff þessa stundina. Það getur breyst á skammri stundu, eins og við vitum. Hvað varðar umræðu um rannsóknir á unglingum og rafrettunotkun þeirra ætla ég að leyfa mér að efast um þær rannsóknir. Kannanir á notkun? Spurningalistar sem er svarað? Ég get ekki séð að hægt sé að taka það til greina þegar teknar eru svona ákvarðanir.

Það er nefnilega til nokkuð góð aðferð sem við höfum til að sporna við einhverju óæskilegu og það eru forvarnir. Mér finnst við ekki hafa talað nógu mikið um þær. Forvarnir eru það eina sem hefur sýnt sig að skilar einhverjum árangri. Boð og bönn og hertar reglur stoppa engan. Það hefur áður komið fram að fólk er tilbúið að leggja ýmislegt á sig til að nálgast þetta. Jafnvel þótt við gerðumst svo gróf að banna það held ég að það myndi ekki bera neinn árangur.

Það er erfitt og vandasamt að vera stjórnmálamaður á tækniöld. Veröldin breytist hratt. Það getur hent alla, líka ráðherra, að hafa ekki nógu góðar upplýsingar og styðjast við ráðgjöf sérfræðinga sem eru aðeins sérfræðingar að nafninu til. Nýjustu upplýsingar benda nefnilega til þess að við höfum hugsanlega fundið okkar pensilín við tóbaksógninni sem drepur fólk í stórum stíl. Mér finnst við tala svolítið léttvægt um hversu frábært þetta gæti verið.

Viðbrögð frá heilbrigðisráðuneytinu eru ekki eins og maður hefði ætlað þegar það kemur eitthvað sem hugsanlega gæti gert jafn góða hluti. Ráðherra kemur hreinlega með frumvarp til höfuðs nýjasta og að því er virðist áhrifamesta baráttutæki okkar gegn reykingum. En ekki er öll von úti. Mér er ljúft og skylt að minna á að Píratar hafa lagt fram miklu eðlilegra frumvarp miðað við tilefnið og hugsanlegan ávinning.