146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

tóbaksvarnir.

431. mál
[18:35]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Eins og ég skildi það benti hv. þm. Hildur Sverrisdóttir á rannsóknir sem gefið hafa misvísandi upplýsingar. Á ráðstefnunni sem ég vitnaði í áðan í ræðu minni sem haldin var á vegum Náum áttum, sem er samstarfshópur um forvarnamál, þann 29. sept. sl. talaði Guðmundur Karl Snæbjörnsson, læknir og sérfræðingur í heimilislækningum, og benti á að erlendar rannsóknir sýndu að rafsígaretturnar væru öruggari heilsu okkar. En þegar kemur að þeim rannsóknum sem ég hef lesið í tengslum við þetta mál er það samt sem áður svo að rafsígarettur sem innihalda nikótín hafa skaðleg áhrif á heilsu okkar. Þær eru jafn skaðlegar og áður. Rafsígarettur sem innihalda ekki nikótín eru að sjálfsögðu skaðlausari.

Hlutfall þeirra sem reykja sígarettur í dag hefur sem betur fer lækkað. Samkvæmt upplýsingum mínum reykja 11% landsmanna í dag. Vonandi fer sú tala lækkandi. Þess vegna þykir mér miður ef verið er að stuðla að því að, ef ég má sletta, með leyfi forseta, normalísera reykingar á þennan hátt, þ.e. normalísera rafsígarettur sem geta innihaldið nikótín, sem er einmitt verið að stöðva og koma í veg fyrir í þessu frumvarpi. Það er verið að gera þetta allt saman skýrara (Forseti hringir.) þannig að fólk geti ekki keypt áfyllingar sem innihalda nikótín þótt það haldi annað.