146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

437. mál
[21:52]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna. Nú er það svo að það eru lög í landinu sem eiga að tryggja jöfn laun karla og kvenna en samt sem áður sitjum við uppi með þá meinsemd sem er kynbundinn launamunur. Það má vera að sú leið, sem hæstv. ráðherra leggur hér til að sé fest í lög, að nýta jafnlaunastaðalinn, sjái til þess að farið sé eftir þeim lögum. Ég er jákvæð gagnvart því og mun skoða þetta allt saman með jákvæðu hugarfari. Hins vegar er ekki eining innan stjórnarþingmanna hvað þetta frumvarp varðar. Ég vil bara spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi ekki áhyggjur af því að hann skuli vera að flytja frumvarp sem talað er um sérstaklega í stjórnarsáttmálanum, en stjórnarþingmenn hafa hins vegar sagt að þeir ætli ekki að styðja og þar með er ekki meiri hluti, alla vega ekki innan stjórnarliðsins, fyrir frumvarpinu.