146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

437. mál
[22:01]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Aðferðafræðin sem staðallinn felur í sér byggir í raun og veru á því að innan fyrirtækja sé einfaldlega jafnlaunakerfi til staðar, launakerfi sem byggir þá á málefnalegum ástæðum til grundvallar launum. Þar er hvert starf metið óháð þeim starfsmanni sem gegnir starfinu og síðan eru skilgreind fyrir fram þau viðmið sem fyrirtækið vinnur eftir hvernig það umbunar fyrir frammistöðu, hvernig það umbunar mögulega fyrir starfsaldur, menntun, ábyrgð o.s.frv., fyrir hvern þann þátt sem fyrirtækið kýs að greiða sérstaklega fyrir. Með þeim hætti er hægt að greina launadreifinguna innan fyrirtækisins og að hve miklu leyti þessar málefnalegu ástæður skýra launadreifingu fyrirtækisins. Það á auðvitað við um hvers kyns ómálefnalega launamun, hvort sem hann grundvallast á kynjum, þjóðerni eða öðrum þáttum sem ekki teljast málefnalegir þættir. Það skiptir í sjálfu sér engu máli hvort það er þá bara eitt kyn til staðar (Forseti hringir.) innan fyrirtækisins o.s.frv., það stýrir launadreifingunni.