146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

437. mál
[22:07]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég má til með að óska hæstv. ráðherra til hamingju með þessa stóru stund þó að ég ætli ekki að ganga jafn langt og heitustu stuðningsmenn málsins og neyða hann til að taka víkingaklappið með mér, eins og gerðist í New York um daginn. Eins og hv. þm. Oddný Harðardóttir benti á eru lög í gildi um það að konum og körlum skuli greidd jöfn laun, en þeim lögum hefur ekki verið fylgt. Þess vegna þurfum við svona lög til að undirstrika önnur lög sem eru þegar í gildi. Mig langar að spyrja ráðherrann, í mínu fyrra andsvari, hvort kannski væri hægt að plata ríkið til að ganga fram með góðu fordæmi, ekki bara með því að innleiða staðalinn hjá stofnunum heldur með því að líta á Stjórnarráðið sem eina heild og taka þar með á kynbundnum launamun milli ráðuneyta, að innleiða jafnlaunastaðalinn yfir öll 11 ráðuneytin í einni bunu.