146. löggjafarþing — 60. fundur,  26. apr. 2017.

sveitarstjórnarlög.

375. mál
[15:39]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011, sem varðar ákvæði laganna um fjölda sveitarstjórnarmanna í fjölmennasta sveitarfélagi landsins, Reykjavíkurborg. Frumvarpið er samið í innanríkisráðuneytinu en efni þess hefur verið kynnt forsvarsmönnum Sambands íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborgar. Þá er frumvarpið efnislega skylt frumvarpi sem átta þingmenn fluttu á síðasta löggjafarþingi en sem hlaut ekki afgreiðslu á þeim tíma.

Markmið frumvarpsins er að afnema þá lagaskyldu sem hvílir á Reykjavíkurborg að fjölga borgarfulltrúum úr 15 í a.m.k. 23 við næstu sveitarstjórnarkosningar og færa það aftur í hendur borgarstjórnar sjálfrar að ákveða hvort þörf sé á fjölgun borgarfulltrúa.

Kveðið er á um fjölda sveitarstjórnarmanna í 1. mgr. 11. gr. sveitarstjórnarlaga. Segir þar að fjöldi sveitarstjórnarmanna skuli vera á bilinu 15–23 þar sem íbúar eru 50.000–99.999, en séu íbúar 100.000 eða fleiri skulu þeir vera 23–31. Þetta felur í sér að fjölga þarf borgarfulltrúum í Reykjavík úr 15 í að lágmarki 23 við næstu sveitarstjórnarkosningar sem fram fara á næsta ári. Í þessu felst breyting frá þeirri skipan mála sem verið hafði samkvæmt eldri sveitarstjórnarlögum, nr. 45/1998, og forvera þeirra, nr. 8/1986, þar sem sagði að í sveitarfélögum þar sem íbúar væru 50.000 eða fleiri skyldi fjöldi sveitarstjórnarmanna vera á bilinu 15–27.

Borgarfulltrúar í Reykjavík eru nú 15 og hafa aldrei verið fleiri, að einu kjörtímabili undanskildu. Á kjörtímabilinu 1978–1982 var borgarfulltrúum fjölgað úr 15 í 21 en strax á næsta kjörtímabili ákvað borgarstjórn að fækka þeim aftur í 15 og hefur fjöldi þeirra verið óbreyttur síðan.

Þó að í greinargerð með frumvarpi núgildandi sveitarstjórnarlaga séu færð fram tiltekin rök fyrir fjölgun borgarfulltrúa er það mitt mat, ekki síst í ljósi sjálfstjórnarréttar sveitarfélaga, að réttara sé að leggja það í hendur borgarstjórnar sjálfrar að ákveða hvort þeim beri að fjölga. Er því í frumvarpinu lagt til að tekin verði upp að nýju eldri skipan mála og borgarstjórn verði því áfram í sjálfsvald sett hvort fjöldi borgarfulltrúa verði óbreyttur eftir næstu sveitarstjórnarkosningar eða þeim fjölgað í allt að 27.

Virðulegur forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efni frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og 2. umr.