146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

viðbótarkvóti á markað.

[13:57]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Á undanförnum tíu fiskveiðiárum hefur kvótinn aukist samtals um 114.000 tonn, eða frá fiskveiðiárinu 2007/2008. Það tekur tíma að innleiða góðar kerfisbreytingar. Því eiga menn að hefjast handa strax við upphaf kjörtímabils. Ég skora því á hæstv. ráðherra að nýta sér þann meðbyr sem er í þinginu fyrir kerfisbreytingum, ef marka má það sem flokkarnir sögðu fyrir síðustu kosningar, þótt ekki væri nema til að fá þá reynslu fyrir næstu skref með því að bjóða út viðbótarkvótann.

Rekstri útgerðarfyrirtækja er ekki ógnað með því að bjóða út viðbótarkvótann. Hvað mælir gegn því að bjóða hann út? Í stjórnarsáttmálanum eru flest umbótamál Viðreisnar afgreidd með orðum eins og að skoða skuli hvort eitthvað ætti að gerast. Og þá helst undir lok kjörtímabilsins. Það er eins og það sé gert til að tryggja að ekki gefist tími til að hrinda þeim í framkvæmd. Hefur hæstv. ráðherra ekki áhyggjur af því að það gefist í raun (Forseti hringir.) ekki tími til að fara í kerfisbreytingarnar? Tíminn er notaður í sáttanefnd sem mun skila einhverju sem ekki er síðan tími til að framkvæma því að kjörtímabilið er búið.