146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

tölvukerfi stjórnvalda.

[14:42]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Herra forseti. Okkur Íslendingum hættir til að berja okkur á brjóst og telja að við séum miklu betri en aðrar þjóðir og ekki síst í tækni- og tölvumálum. Höfum við einhvern tímann verið það þá er sá tími liðinn að sinni og mikilvægt að við tökum okkur tak og reynum að ná forystusæti á ný. Hjá ríkinu eru mörg og misjöfn kerfi, eins og vakin hefur verið athygli á af hv. málshefjanda. Þau eru misörugg og hér vantar okkur nýja stefnu, stefnu sem gengur þvert á öll ráðuneyti. Það er kannski þannig í þessu að við erum með of marga smákónga, suma sem eru bara furstar eða barónar og hafa aldrei ætlað sér að taka sér þessa tign. Þess vegna er það sem tillaga Pírata um tæknistjóra ríkisins er allrar athygli verð og við höfum, eins og ég kom að í ræðu minni áðan, lesið hana af miklum áhuga í fjármálaráðuneytinu.

Þetta passar einmitt vel við verkefni sem við erum að fara af stað með, sem gengur undir vinnuheitinu Betri ríkisrekstur. Stór hluti af betri ríkisrekstri er tölvusamskipti, tölvurekstur, tölvuforrit, tölvuumhverfi. Þar setjum við rafræn samskipti hins vegar ekki á oddinn heldur vinsamleg samskipti almennings við hið opinbera, þ.e. að almenningur geti haft ánægju af samskiptum sínum við hið opinbera. Því náum við með því að opna á gögn ríkisins, með því að samræma viðmót, með því að búa til eitt aðgengi að ríkinu öllu. Að því held ég að við getum öll unnið saman og þess vegna þakka ég öllum þeim hv. þingmönnum sem tóku til máls fyrir að taka þátt í þessari góðu umræðu.