146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

Matvælastofnun.

370. mál
[14:45]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Herra forseti. Eins og þingheimi er kunnugt var ráðuneytinu skilað skýrslu um Matvælastofnun, þá mikilvægu stofnun fyrir okkur Íslendinga. Ég taldi mjög brýnt að gera þetta að þingskjali til þess einmitt að taka málið upp á þingi. Ég tel mikilvægt fyrir samfélagið að við aukum skilning á hlutverki, markmiðum og tilgangi Matvælastofnunar. Ég tel ekki síst þingið verðugan stað til þess að hefja þá umræðu, fá málefnalega umræðu og upplýsingar í salnum til þess að reyna að ná samhljómi um það hvert við ætlum að fara með stofnunina. Við ætlum að fara með hana þannig að við ætlum að ýta undir hana, styðja hana, styrkja og læra af þeim mistökum og læra af fortíðinni sem oft og tíðum hefur verið svolítið skrykkjótt. Þá er ég ekki að tala bara um innan Matvælastofnunar, heldur er það líka ráðuneytið sjálft. Við sem störfum þar þurfum að átta okkur á því hvað við getum gert betur þar. Þetta er ekki eingöngu Matvælastofnun heldur líka framleiðendur, það eru ýmsir þeir sem eiga í samskiptum við Matvælastofnun sem þurfa að átta sig á hver tilgangur stofnunarinnar er.

Auðvitað þekkjum við þetta í kjölfar Brúneggjamálsins svokallaða sem var mjög fyrirferðarmikið í fjölmiðlum allt til loka ársins 2016. Þá var tveimur sérfræðingum, Bjarna Snæbirni Jónssyni stjórnunarráðgjafa og Ólafi Oddgeirssyni dýralækni, falið að gera úttekt á stofnuninni. Þeim var annars vegar falið að athuga stjórnun, innra starf og starfsumhverfi stofnunarinnar og hins vegar hvernig Matvælastofnun sinnti matvælaeftirliti og eftirliti með dýravelferð.

Í báðum tilfellunum var höfð hliðsjón af verklagi og starfsemi í svipuðum stofnunum í Evrópu eftir því sem kostur var. Ég veit að þingmenn hafa farið vel yfir það hvernig fyrirkomulaginu er háttað í Evrópu og ekki síst, myndi ég segja, er mikilvægt að horfa til Danmerkur og ekki síður Noregs.

Tilgangurinn með þessu verkefni og skýrslu var að yfirfara starfsemi stofnunarinnar og gera tillögur um úrbætur þar sem þess var talið þörf. Þeir skiluðu síðan skýrslunni í lok mars 2017 og höfum við beðið eftir því í þinginu að geta rætt þetta.

Auðvitað verður mikilvægi Matvælastofnunar við að tryggja öryggi neytenda og útflutningshagsmuna þjóðarinnar síst ofmetið. Skýrslan leiðir að mínu mati í ljós að stofnunin nær ekki að sinna öllum lögbundnum skyldum sínum sökum mikilla anna og álags hjá stjórnendum og starfsmönnum. Þörf er því á því að athuga hvort fjármögnun stofnunarinnar sé í samræmi við þau verkefni sem stofnuninni er falið að annast. Þetta er ég m.a. að skoða innan fjármálaáætlunar, hvernig ég get forgangsraðað því takmarkaða fjármagni sem maður hefur þó til umræða, hvernig við getum ýtt undir annars vegar Hafrannsóknastofnun og hins vegar Matvælastofnun.

Auk þess eru helstu niðurstöður skýrslunnar að innan stofnunarinnar sé ákveðinn stjórnunarvandi. Þörf sé á stefnumótun við hlutverk stofnunarinnar og matvælaeftirlit almennt og loks að ýmsir þættir í skipulagi matvælaeftirlits hér á landi skapi vandamálið, ég kem að því á eftir.

Í skýrslunni er einnig fjallað sérstaklega um Brúneggjamálið og þann lærdóm sem draga má af því máli. Við verðum að draga lærdóm af því máli. Niðurstöðurnar fela í sér grundvöll aðgerðaáætlunar sem verða að nauðsynlegum breytingum á starfsemi stofnunarinnar þannig að hún geti sem best þjónað mikilvægu hlutverki sínu.

Af því að hlutverk stofnunarinnar er svo mikilvægt lagði ég áherslu á að þessi skýrsla yrði að þingskjali og að hún yrði rædd hér. Það eru gríðarlega miklir hagsmunir til framtíðar fyrir okkur sem matvælaland, bæði á sviði sjávarútvegs- og landbúnaðarframleiðslu, undir því að eftirlitið hér sé skýrt, skilvirkt, það sé gegnsætt og ekki síst til hagsbóta fyrir neytendur um leið og sjónarmiða framleiðenda er gætt, en líka fyrir markaðsstarf, t.d. fyrir íslenska framleiðslu. Það er gríðarleg þróun varðandi markaðsstarf á erlendri grundu. Tækifæri þar fyrir okkur Íslendinga á sviði sjávarútvegs og landbúnaðar eru mjög mikil en einungis ef við pössum okkur á að vinna heimavinnuna okkar. Þess vegna verður stofnun eins og Matvælastofnun að vera gert kleift að sinna hlutverki sínu og hlutverkið þarf að vera skýrt.

Eins og kemur skýrt fram í skýrslunni sjáum við að það eru ákveðnar aðgerðir sem þarf að fara í til að styrkja Matvælastofnun. Það þarf að samstilla áherslur stjórnvalda og Matvælastofnunar með því að ræða áherslur sem kunna að vera óljósar. Það þarf að gera stjórnendum stofnunarinnar kleift að skipuleggja þróun í innra starfi. Það þarf í rauninni að efla, bæta og styrkja mannauðsstjórnina innan stofnunarinnar. Við hjá ráðuneytinu þurfum að styðja stofnunina í þeim efnum.

Við hjá ráðuneytinu þurfum líka að líta í eigin barm. Það eru ákveðnar vísbendingar í skýrslunni sem ég tel að ráðuneytið verði að horfa mjög gagnrýnum augum á, vera svolítið í sjálfsgagnrýninni. Það er hægt að taka t.d. Brúneggjamálið. Það komu athugasemdir frá Matvælastofnun til Búnaðarsambandsins varðandi vistvænu landbúnaðarstarfsemina. Það var ekkert gert í því, ábendingum var beint til ráðuneytisins og ekkert gert. Þetta þurfum við að laga. Það er ekki aðeins verið að benda á Matvælastofnun, við sem tilheyrum ráðuneytinu þurfum einnig að skoða það sem betur má fara.

Ég sé að tíminn sem ég ætlaði mér í fyrri umferð er á þrotum. Viðbrögðin hjá okkur í ráðuneytinu voru strax, af því að skilaboðin voru mjög skýr, að styrkja mannauðsstjórnina, styrkja stofnunina, halda vel utan um hana og láta starfsfólk stofnunarinnar vita að við stæðum með henni. En við erum ekki gagnrýnislaus. Við notum skýrsluna til þess að byggja upp.

Hvað getum við hjá ráðuneytinu gert? Það er alveg skýrt að við þurfum að móta matvælastefnu á Íslandi. Það er ekki til matvælastefna hér á landi. Ég ætla í sumar, í síðasta lagi í haust, að setja saman formlegan hóp, matvælastefnuhóp sem hefur það hlutverk að setja niður matvælastefnu fyrir Ísland. Ég bregst þannig við ályktunum skýrsluhöfunda.

Hvað er annað? Það liggur alveg ljóst fyrir að eftirlitið er flókið. Eftirlitið er ekki endilega skilvirkt. Það er ekki eingöngu út af Matvælastofnun heldur m.a. út af heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga, og ég er ekki að gagnrýna það eftirlit, þetta er flókið. Við sáum það í Brúneggjamálinu að eftirlitskerfið þjónaði t.d. ekki neytendum, það þjónaði neytendum alls ekki. Þá hljótum við sem teljumst til hins opinbera, ríki og sveitarfélög, að setjast niður og skoða og fara í aðgerðir sem miða að því að samræma eftirlit. Ég er búin að setjast niður með forystumönnum sveitarfélaga, Sambands íslenskra sveitarfélaga, til að setja þetta í ákveðinn farveg. Ég veit að menn hafa í kjölfarið fundað með þeim auk samtaka heilbrigðisnefnda sveitarfélaga. En að mínu viti er algjörlega ljóst að það kerfi sem við bjóðum upp á núna skilar sér ekki í þágu neytenda, hvað þá að það styðji við bændur og aðra til að tryggja örugga framleiðslu og eftirlit.

Mér finnst mikil ábyrgð fólgin í því ef við, ríki og sveitarfélög, náum að setjast niður og samræma eftirlitið. Erum við að tala um miðstýrða stofnun? Eitt af því sem við hugum að hlýtur að vera að hafa eina stofnun eins og Matvælastofnun á Suðurlandi og dreifa síðan útibúum vítt og breitt um landið til þess að reyna að einfalda eftirlit, gera það skilvirkara og einfaldara en það er í dag, ekkert ósvipað og ég gat um og er í Noregi og Danmörku.

Ríki og sveitarfélög geta ekki setið hjá með þessa skýrslu. Við þurfum að halda áfram að vinna eftir henni og það ætlum við okkur að gera. Ég kem að því á eftir hvað það er fleira sem ég tel mikilvægt að við gerum varðandi stofnunina, en í heild sinni er þetta dæmi um hvernig á að vinna hlutina. Forveri minn í starfi setti af stað þennan hóp vitandi það að það kæmi ekki endilega út einhver glansmynd. En við eigum að nýta þetta til að horfa til framtíðar, halda utan um stofnunina og tryggja skilvirkt eftirlit til þess að við getum sem matvælaframleiðsluland sótt fram til framtíðar með afurðir okkar á erlendum mörkuðum. Til þess að við getum gert það þurfum við að vera með allt okkar á hreinu.