146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

þjónusta við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir.

438. mál
[16:08]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Það er einmitt einn megintilgangur þessarar lagasetningar og frumvarps til breytingar á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga að fullgilda og binda í lög ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðs fólks. Það er útgangspunkturinn í þessari lagasetningu hér. Ég held að við séum að ganga mjög langt í þeim efnum. Við eigum að hafa ákvæði samningsins að leiðarljósi, að tryggja fötluðu fólki sjálfstætt líf án aðgreiningar. Ég held að við séum að stíga mjög mikilvægt skref í þá átt. En vissulega eigum við líka að hafa metnað til að halda áfram á þeirri vegferð og ganga þá úr skugga um að við vinnum í anda samningsins á öllum vígstöðvum.