146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

439. mál
[17:48]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, með síðari breytingum. Þetta frumvarp er, getum við sagt, fylgifiskur þess máls sem við ræddum fyrr í dag, frumvarps til laga um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir.

Meginmarkmið breytinganna í þessu frumvarpi er að innleiða ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks í íslenska löggjöf. Samhliða frumvarpi þessu er lagt fram frumvarp um nýja heildarlöggjöf um þjónustu við fatlað fólk sem fyrr segir. Aðrar breytingar snúa að nauðsynlegum breytingum laganna vegna þróunar á sviði annarra laga.

Frumvarp þetta er byggt á vinnu starfshóps sem skipaður var af þáverandi félags- og húsnæðismálaráðherra árið 2014 og hafði það hlutverk að endurskoða lög um málefni fatlaðs fólks og lög um félagsþjónustu sveitarfélaga. Í starfshópnum sátu fulltrúar hagsmunasamtaka notendaþjónustu þessara tveggja lagabálka, þar með talið fatlaðs fólks og eldri borgara, en einnig fulltrúar félagsmálastjóra sveitarfélaga og fulltrúi innanríkisráðuneytisins.

Drög að frumvörpunum voru sett á heimasíðu ráðuneytisins í opið umsagnarferli sumarið 2016 og bárust fjölmargar umsagnir. Hópurinn skilaði svo tillögum sínum í október 2016. Þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru þessar helstar:

Í fyrsta lagi eru lagðar til breytingar á ákvæðum laganna um skipulag og stjórn og hlutverk félagsmálanefnda þar sem skipulag þeirra er fært til samræmis við endurskoðuð sveitarstjórnarlög frá árinu 2011. Þá er einnig hnykkt á eftirlitshlutverki ráðherra, m.a. með því að fela honum að úrskurða í ágreiningsmálum sem lúta að því hvort reglur sveitarfélags eigi sér fullnægjandi lagastoð. Breytingarnar lúta einnig að því að skýra feril ágreiningsmála og málskots innan stjórnkerfisins.

Í öðru lagi er í frumvarpinu að finna ákvæði um samráð við notendur þjónustunnar og sérstök notendaráð fyrir einstaka hópa, en það er í fyrsta sinn sem kveðið er á um slíkt í lögum. Í því felst mikil valdefling fyrir notendur þar sem þeir fá að hafa áhrif á þá stefnu sem sveitarfélögin hafa en einnig tækifæri sveitarfélaganna til að laga þjónustuna betur að þörfum þeirra sem nota hana.

Í þriðja lagi er fjallað um samninga við einkaaðila og starfsleyfisveitingar til einkaaðila sem hyggjast veita þjónustu sem fjallað er um í lögunum. Eru ákvæðin færð til samræmis við ákvæði sem lögð eru til í frumvarpi til laga um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir sem lagt er fram samhliða frumvarpi þessu.

Í fjórða lagi eru síðan lagðar til breytingar á þeim ákvæðum laganna sem fjalla um félagslega heimaþjónustu á þann hátt að þjónusta verði ekki bundin við heimili heldur nái til þjónustu við athafnir daglegs lífs og til að rjúfa félagslega einangrun. Þjónusta þessi er fyrir alla sem hafa viðvarandi eða tímabundnar stuðningsþarfir, en gengið er út frá því að þegar þjónustuþarfir verði meiri en sem nemur 10–15 tímum á viku taki við sértækari þjónusta, m.a. á grundvelli frumvarps þess sem lagt er fram samhliða, um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir. Þá skal einstaklingur eiga möguleika á að gera notendasamninga sem fela í sér að notandinn hefur stjórn á því hvernig og hvenær hann fær þjónustu. Var í því samhengi horft til hugmyndafræðinnar um sjálfstætt líf, samanber 19. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og fyrirkomulags notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar.

Það er mikið ánægjuefni að við séum að stíga það mikilvæga skref að lögleiða notendastýrða persónulega aðstoð með þessum hætti.

Í fimmta lagi eru síðan ákvæði um akstursþjónustu, sem verið hafa í lögum um málefni fatlaðs fólks, skýrð og flutt í lög um félagsþjónustu sveitarfélaga þar sem um almenna þjónustu er að ræða fyrir fatlað fólk, óháð því hversu miklar aðrar þjónustuþarfir eru.

Að lokum er ákvæðum um húsnæðismál breytt til samræmis við frumvarp til laga um breytingu á lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998, sem ætlunin er að leggja fram aftur. Frumvarpið var lagt fram á Alþingi á 145. löggjafarþingi en varð ekki útrætt. Er þar lagt til að kveðið verði með almennum hætti á um skyldur sveitarfélaga í húsnæðismálum í lögum um húsnæðismál, en í lögum um félagsþjónustu verði fjallað um úthlutun á félagslegum íbúðum sveitarfélaga.

Herra forseti. Ég hef gert grein fyrir meginefni frumvarpsins en ég tel að í því felist mikilvægar réttarbætur, bæði hvað varðar þjónustu við fatlað fólk en ekki síður breytingar á stjórnsýslu og eftirliti með félagsþjónustunni. Báðir þættirnir eru afskaplega mikilvægir. Auknar kröfur til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga hafa kallað á virkara eftirlit samhliða auknum kröfum um samræmi milli sveitarfélaga.

Ég leyfi mér að leggja til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. velferðarnefndar og til 2. umr.