146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

439. mál
[18:03]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra svarið. Ég er glöð að hann sé sammála mér um að það sé mikilvægt, þegar við erum að gera breytingar af þessu tagi, að passa upp á það að enginn detti á milli því að það er auðvitað alltaf ákveðin hætta á því þó svo að enginn ætli að leggja upp með það. Ég tel mikilvægt að þessi samráðsnefnd verði skipuð fyrr en síðar til að skoða þessi mál. Það er þannig að það eru hlutir sem maður sér alveg strax að munu kosta peninga, mjög jákvæðir hlutir.

Mig langar að nefna sem dæmi að veita eigi fólki stuðningsþjónustu í staðinn fyrir heimaþjónustu. Það hefur verið eitt af því sem hefur verið vandinn við kerfið okkar eins og það er uppbyggt í dag að fólk hefur getað fengið þjónustu inn á heimili sitt, sem er jákvætt, en hin neikvæða hliðarverkun af því hefur verið sú að fólk hefur stundum orðið að hálfgerðum stofuföngum á eigin heimili því að það hefur ekki fengið stuðning til að fá aðstoð utan heimilisins. Ég held að það sé alveg klárt að breytingar á þessu gætu kallað á aukinn kostnað. Þess vegna vil ég ítreka það og brýna hæstv. ráðherra í því, ef við gefum okkur að þetta frumvarp verði samþykkt, hvort sem það er í þessari mynd eða með breyttu sniði eftir meðferð hv. velferðarnefndar, að það verði fyrsta verkið að skipa þessa nefnd.