146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

farþegaflutningar og farmflutningar.

128. mál
[20:52]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar spurningar. Það er alveg ljóst að almenningssamgöngur út um allt land skipta gríðarlega miklu máli fyrir þá sem þar búa. Eins og ég rakti áðan hafa komið fram alvarlegar kvartanir undan því að verið sé að keyra ofan í þessar einkaréttarleiðir. Það er það sem við viljum koma í veg fyrir með þeim breytingartillögum sem nefndin leggur til.

Varðandi það höfum við rætt að jafnvel þurfi að setja sérstök lög um almenningssamgöngur. Það er náttúrlega alveg ljóst að samgöngur um landið, hvort sem það er á vegum, sjó eða í lofti, ef fram fer sem horfir varðandi þróun ferðaþjónustu á landinu skipta þær miklu máli. En almenningssamgöngur sem slíkar skipta þá langmestu máli sem ferðast fram og aftur um landið og hafa ekki verið og vilja kannski ekki vera á eigin bílum, m.a. til þess að koma í veg fyrir sóun og mengun. Það er bara eðlilegur hluti af nútímasamfélagi að hægt sé að bjóða upp á þennan ferðamáta. Nefndin tekur undir það.