146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

farþegaflutningar og farmflutningar.

128. mál
[21:40]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrir það fyrsta fagna því að hér skuli vera komið mál svo langt og nálægt afgreiðslu sem raun ber vitni og að það mál skuli vera samstöðumál. Það skiptir miklu máli fyrir Alþingi að við náum saman um stór mál. Við gleymum því líka sjálf þegar við erum að tala um hvernig stofnun Alþingi er, að halda því á lofti að það eru sem betur fer slík tilefni líka að okkur lánast að leiða saman sjónarmið og komast að sameiginlegri niðurstöðu fyrir málið í heild, fyrir Alþingi í heild og fyrir samfélagið í heild. Það er að takast hér. Ég vil sem fyrrverandi nefndarmaður í umhverfis- og samgöngunefnd óska nefndinni til hamingju með það, það er afar mikilvægt og hefur áður tekist í þeirri nefnd að gera það í stórum og miklum og þungum málum, til að mynda náttúruverndarlög sem voru mikil boðaföll og skruðningar í kringum, en það tókst svo fyrir rest að ná sameiginlegri niðurstöðu. Það er afar mikilvægt þegar um stór mál er að ræða og ekki síst þau sem varða grunnkerfi í samfélaginu. Ég held að það sé gott veganesti fyrir umhverfis- og samgöngunefnd inn í stór mál sem fram undan eru á þessu þingi og því næsta að hafa tekist að leiða þetta mál til lykta. Án þess að ég hafi setið sjálf í nefndinni veit ég að til þess að komast á leiðarenda með þessum hætti þurfa mörg samtöl að hafa átt sér stað og þarf að vera búið að hlusta á marga gesti og lesa margar umsagnir, þannig að ég fagna afgreiðslunni sérstaklega.

Ég þakka sérstaklega fyrir góðar undirtektir að því er varðar ábendingu mína um að það kynni að vera rétt að skoða það milli 2. og 3. umr. að bæta við bráðabirgðaákvæði við endanlega afgreiðslu málsins. Jafnframt þakka ég fyrir að formaður nefndarinnar hefur tekið vel í að málið verði tekið aftur til nefndar milli 2. og 3. umr. til þess a.m.k. þau sjónarmið verði reifuð. Ég hef sjálf ekkert endanlega sannfæringu um að rétt sé að fara þá leið og hef fulla trú á því að nefndin komist að bestu niðurstöðunni í málinu. Ég heyri engin önnur sjónarmið hjá nefndarmönnum en þau að það sé farsælt að í framhaldi af samþykkt þessa frumvarps fari fram heildarendurskoðun á lagaumhverfi farþegaflutninga á Íslandi með einföldun að leiðarljósi, eins og fram kemur í nefndaráliti. Ég held að það sé alveg einnar messu virði að kanna hvort hægt sé að búa um það í bráðabirgðaákvæði og þá kannski fyrst og fremst vegna þess að sú sem hér stendur hefur reynslu af því að vera ráðherra sem tekur við slíkri leiðsögn frá Alþingi.

Það er töluverður munur á því hvort sú leiðsögn er í nefndaráliti, eins og hér er lagt til við 2. umr. málsins, eða við fullbúið bráðabirgðaákvæði, sem er mun skýrari leiðsögn til ráðherra um hvað beri að gera. Eins og fram kom í máli hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur er verið að taka einn bita af stórum fíl, það er ákvörðun sem nefndin tekur og raunar ráðherra með því að leggja málið fram með þessum hætti. En um leið og fólk er tiltölulega sammála um að fíllinn skuli vera í matinn í framhaldinu held ég að það sé ágætt í ljósi þessarar breiðu pólitísku samstöðu að þingið segi líka B, þ.e. hvað það er sem við viljum öll sjá að verði gert næst, af því að ég heyri ekki betur en að það sé nokkuð skýrt.

Það er alltaf áhugavert í sjálfu sér hvað veldur því að það myndast þverpólitísk samstaða um mál. Það er oft þannig að það eru ýmis önnur element, ef svo má að orði komast, en beinlínis hefðbundin flokkspólitísk afstaða sem leiðir fólk saman í kringum svona mál. Meðal annars má nefna að fólk hefur e.t.v. haft aðkomu að sveitarstjórnarmálum. Það hefur svipaða sýn á tiltekna þætti vegna búsetu sinnar eða vegna þess hvaðan það kemur. Þessi sjónarmið fá stundum meira rými í nefndarvinnunni en þau fá hér í þingsalnum þar sem við erum einatt uppteknari af því hver tilheyrir hvaða þingflokki. Það er oft gott fyrir þingið í heild að fá slíkar víddir inn í pólitíska umræðu í þingsalnum. Fyrir það ber að þakka og því ber að fagna sérstaklega.

Eins og ég sagði áðan þurfum við að muna að vera stundum vægari við okkur sjálf þegar við höldum að öll stjórnmál séu á heljarþröm og allt sé hér að fara fjandans til að meðaltali. Og við eigum eiginlega bara að skammast okkar strax til öryggis daginn sem við erum kosin á þing frekar en horfast í augu við það að stundum er verið að gera verulega góða hluti þó að það sé ekki þar með sagt að við gleymum því að við erum kosin hér vegna þess að við erum í ólíkum flokkum og höfum ólíkar áherslur og eigum að halda þeim meiningarmun til streitu og ræða þau í hörgul. Til þess erum við líka kosin hingað.

Vegna þess að hér voru aðeins rædd þau sjónarmið sem lúta að mikilvægi almenningssamgangna almennt langar mig að nefna þau atriði sem nefnd hafa verið ítrekað sem lúta að því stóra viðfangsefni sem fram undan er, sem er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Það er verulegt áhyggjuefni ef okkur lánast ekki að taka utan um allar áætlanir samfélagsins í þágu samdráttar í losun, m.a. auðvitað samgönguáætlun og ekki síst, því að komið hefur fram ítrekað hjá þeim aðilum sem gert hafa úttekt á stöðu okkar í loftslagsmálum að stærstu tækifæri okkar liggja að öllum líkindum í því að draga úr losun í samgöngum. Þá verður ekki fram hjá því litið að þau tækifæri eru eðli málsins samkvæmt fyrst og fremst hér á suðvesturhorninu, einfaldlega vegna þess hversu stór hluti íbúanna býr á höfuðborgarsvæðinu. Þá er ég alls ekki að tala um mikilvægi samgangnanna á nokkurn hátt, vegna þess að ég geri mér algerlega grein fyrir að mikilvægið er ekki síðra þar sem um lengri veg er að fara í dagsins önn.

Varðandi mikilvægi þess að draga verulega úr losun, draga úr vægi einkabílsins í umferð á höfuðborgarsvæðinu, erum við beinlínis að tala um aðgerðir í þágu þeirra markmiða sem við höfum undirgengist á alþjóðavísu, að jafna möguleika samgöngumáta, þ.e. að gera þá valkosti jafn stæða hvort við veljum að nota einkabíl, almenningssamgöngur, ganga eða hjóla eða hvað það er sem við viljum gera hér frá degi til dags. Til þess að það megi gerast þurfum við að gera ráðstafanir sem eru í þágu þeirra valkosta sem eru aðrir en einkabíllinn, ekki með því að þrengja að honum, heldur þurfa þau skref sem við erum að stíga, hvort sem það er í umferðarmannvirkjum eða öðrum umbúnaði, að vera til þess að gera það auðveldara að hjóla, taka strætó og að þróa þá samgöngumáta sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa sem betur fer komið sér saman um að hljóti að vera næstu skref, sem er borgarlína.

Það er í raun og veru miklu merkilegra en það virðist við fyrstu sýn að þau sveitarfélög sem eru undir forystu mjög fjölbreyttra flokka allt frá hægri til vinstri á litrófinu, eru sammála um að þetta beri að gera. Það er óendanlega mikilvægt að við höldum því leiðarljósi á lofti að við þurfum ekki að taka einhvers konar átakaumræðu um það, heldur eigum við að horfa til þess sem höfuðborgarsvæðið hefur þegar komist að að því er varðar borgarlínumálin.

Hér voru umræður í andsvörum um aðra valkosti en strætó í almenningssamgöngum, hvort sem það er borgarlína, léttlestir, hraðvagnar, lestarsamgöngur á milli höfuðborgarsvæðisins og Keflavíkur, eins og var raunar þingsályktunartillaga frá okkur í Vinstri grænum, sem samþykkt var, þess efnis að kanna sérstaklega kosti lestarsamgangna milli höfuðborgarsvæðisins og Keflavíkur. Allt eru það kostir sem við verðum að hafa uppi á borðinu á hverjum tíma til þess að bera saman við annað þar sem við erum með í höndunum vegna þess umhverfiskostnaðar sem undir er á hverjum tíma, og, þegar allt kemur til alls, þá fyrst og fremst vegna losunarmarkmiða okkar.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa ræðu. Mér finnst eins og ég sé komin í fjölskylduboð hjá annarri familíu þegar ég tala hér á mælendaskrá umhverfis- og samgöngunefndar þar sem hver nefndarmaðurinn á fætur öðrum er búinn að tala um hvað það sé gaman í nefndinni, sem er alltaf skemmtilegt. Það er auðvitað mjög ánægjulegt, ég fagna því. Ég man nú meira að segja eftir því að einu sinni gekk það svo langt með okkur í umhverfis- og samgöngunefnd þegar við vorum að ljúka umræðu um náttúruverndarlög að við vorum búin að mæra svo mikið formann nefndarinnar að Steingrímur Sigfússon, hv. þingmaður fyrr og nú, sá ástæðu til þess að óska eftir því að við færum aðeins að hægja á okkur í þessu hrósi öllu saman gagnvart formanni nefndarinnar. En það er alveg grínlaust mjög mikilvægt að halda því til haga þegar vel gengur. Ég ítreka hamingjuóskir mínar til nefndarinnar á þessu stigi málsins, því er auðvitað ekki lokið, og brýna nefndina til að skoða mjög ítarlega með nefndarritara sínum kosti þess að fara þessa bráðabirgðaákvæðisleið.