146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

kosningar til sveitarstjórna.

190. mál
[22:35]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég þakka þessi svör. Ég verð eiginlega að taka undir það, ég held að það væri mjög áhugavert að fá umsagnir um þetta ágæta frumvarp. Í ljósi þess að óðum styttist í sveitarstjórnarkosningar væri eiginlega betra að fá slíkar umsagnir og afgreiðslu um málið fyrr en seinna. Ég tel að kannski þurfi einhvern undirbúning og þótt skólarnir standi sig mjög vel í lýðræðisfræðslu hygg ég að þeir myndu nú taka þetta sérstaklega upp á sína arma og fjalla sérstaklega um það ef lækka ætti kosningaaldur til sveitarstjórna. Ég fagna því að hér sé verið að mæla fyrir þessu frumvarpi og hlakka til að sjá hvernig allsherjar- og menntamálanefnd tekst á við þetta verkefni og hvaða umsagnir munu berast. Ég treysti því þá að því verði meðal annars vísað til umsagnar hjá ungmennaráðum víða því að þau hafa svo sannarlega góða rödd og eru mjög virk víðast hvar.