146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

kosningar til sveitarstjórna.

190. mál
[23:11]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka flutningsmanni þessa máls að hafa komið með það hingað inn. Ég held að þetta sé mjög þarft og gott mál sem við þurfum að ræða og fara vel yfir. Á því eru ýmsar hliðar og nokkur sjónarmið. Ég átti fund með ungum Framsóknarmönnum þar sem við ræddum málin og komumst á þann umræðugrundvöll að ég gat tekið undir sjónarmið þeirra. Þetta unga fólk er svo vel gert, kemur með rök með og á móti og veltir málunum fyrir sér eins og flest ungmenni gera. Helstu rökin sem hníga að því að styðja frumvarpið eru þau að þátttaka ungs fólks í kosningum hefur verið mjög dræm undanfarið. Ungt fólk hefur skoðanir á því samfélagi sem það býr í eins og aðrir. Þetta er tækifæri fyrir þau áhugasömu ungmenni til að kjósa og það gæti haft hvetjandi áhrif.

Ungmennin ljúka skólaskyldu við 16 ára aldur og teljast þá fullgildir þátttakendur í samfélaginu en fá þó ekki að hafa skoðun á því. Þarna er misræmi. Breyting á þessu hefur bæði í för með sér breytingar á kosningaaldri og kjörgengi. Það telja ungir Framsóknarmenn að mætti skoða betur, hvort kjörgengi ætti að haldast óbreytt. Við höfum dæmi úr forsetakosningum þar sem kjörgengi og kosningaaldur er ekki sá sami.

Mig langar að tíunda nokkra punkta. Helstu gallarnir, svo að við byrjum á þeim og eigum það góða eftir, eru að einstaklingur verður lögráða við 18 ára aldur. Þangað til ræður hann ekki yfir fé sínu eða öðru nema lög mæli fyrir á annan veg. Árið 1997 var lögræðisaldur færður upp í 18 ár úr 16 og þá helst með þeim rökum að ungmenni byggju flest í foreldrahúsum til tvítugs og nytu stuðnings foreldra sinna. Þá má velta því fyrir sér hvort ósamræmi sé þarna á milli eins og komið hefur fram í máli margra hér í kvöld, þ.e. að ósamræmi sé milli þess að einstaklingur sé lögráða en fái ekki að kjósa til sveitarstjórna. Er samfella í því?

Einhverjir halda því fram að þekking ungmenna á málaflokknum sé ekki nógu góð. Þá má segja að mikilvægt sé, verði frumvarpið að lögum, að gert verði átak í því. Það hefur vissulega verið gert, bæði með aukinni lýðræðisþátttöku og lýðræðiskennslu í skólum og ungmennaráðum í sveitarfélögum. En í raun eru þetta óskaplega lítil rök. Ekki er hægt að segja að þessi ákveðni hópur hafi minni þekkingu en hópurinn 18–20 ára, svo að dæmi sé tekið, og það sé endilega eitthvað betra. Ég sé ekki að það sé hugsanlegur galli á þessu.

Helstu kostirnir eru þó nokkuð margir og ég ætla að fá að tíunda þá hér. Það er líklegt að áhugi ungmenna á stjórnmálum aukist. Það er vel, það er gott. Við þurfum að virkja ungt fólk til þátttöku í samfélaginu. Við þurfum að opna leiðina betur og hafa meiri umræðu á miklu víðari grunni. Einn ræðumaður áðan talaði um að eldra fólki fyndist það sett til hliðar því að ekki væri tekið mark á því í skoðanakönnunum. Þarna erum við svo með annan hóp sem kemur þar á móti. Þetta er þá ekki þverskurðurinn af samfélaginu okkar og þeim breiða hópi sem tekur þátt í samfélaginu. Það er mikilvægt að við förum að grípa inn í þá þróun að fólk sé hætt að láta sjá sig á kjörstað. Við verðum að fá fleiri á kjörstað. Við verðum að virkja lýðræðið betur.

Sýnt er að þeir sem fást til að nýta kosningarréttinn ungir séu líklegir til að nýta hann áfram. Það er ótvíræður kostur. Þetta er þá tækifæri fyrir ungmenni til að móta líf og framtíð. Við sem eldri erum eigum ekki að segja þeim hvernig hlutirnir eigi að vera, við eigum að hlusta og fá þau til samtals við okkur. Ég held að það sé eðlilegur gangur. Það er eðlilegt í ljósi þess að skólaskyldu er lokið og ungmenni því meiri þátttakendur í samfélaginu. Ef ég lít út um land, þar sem ég kem utan af landi, eru mörg barnanna okkar flutt að heiman 15 ára og þurfa að sjá um sig sjálf. Sú er raunin hjá stórum hluta þjóðarinnar. Geta þau þá ekki alveg eins haft áhrif á og látið í ljósi pólitískar skoðanir, tekið þátt í pólitísku starfi eða greitt atkvæði? Þetta er líka eðlilegt í ljósi þess að ungmenni 16 ára og eldri greiða tekjuskatt, eru farin að leggja til samfélagsins með vinnu sinni. Eins og komið hefur fram í umræðunni hefur lækkun kosningaaldurs líka gefið góða raun.

Ég fagna því að þetta frumvarp sé komið fram. Ég hlakka til að sjá hvernig það fer í meðförum nefndarinnar og sjá umsagnir og vona að þetta mál fái góða skoðun og góða vinnu. Ég hlakka til að fylgjast með því.