146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

störf þingsins.

[15:34]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að tala aðeins um utanspítalaþjónustu með þyrlum eða sjúkraflutninga með þyrlum. Mikið hefur verið rætt um kaup á nýjum þyrlum fyrir Landhelgisgæsluna, sem eru mjög mikilvæg. Landhelgisgæslan sinnir mjög mikilvægu hlutverki við leit og björgun og við sjúkraflutninga við erfiðar aðstæður, sinnir þeim sjúkraflutningum sem þarf með þyrlu í dag.

En þegar talað er um utanspítalaþjónustu með þyrlu er verið að tala um sérstaka sjúkraþyrlu til að sinna sjúkraflutningum eingöngu. Hún er þá mönnuð til þess að færa sérhæfða aðstoð út á vettvang veikinda eða slyss á sem skemmstum tíma, því að fyrstu mínúturnar skipta alltaf miklu máli, og einnig til að koma að sem stuðningur við það viðbragð sem er heima í héraði. Það er gríðarlega mikilvægt.

Það er mikilvægt að það komi fram á meðan við tölum um þyrlur Landhelgisgæslunnar, sem eru mjög mikilvægar, að þetta er allt öðruvísi þyrla sem er minni í sniðum með öðruvísi áhöfn og allt annan kostnað. Það er ekki sami kostnaður við reksturinn á þessum en hinar þyrlurnar verða áfram mikilvægar við erfiðari aðstæður, sérstaklega á hafi úti.

Ég held að við ættum að sameinast um að skoða þetta. Nú þegar sumarið er að ganga í garð og álagið mun aukast mjög mikið á utanspítalaþjónustunni munum við sjá þörfina fyrir þetta. Með tilkomu slíkrar þyrlu tökum við heldur ekki viðbragðið heiman úr héraði við að ferja sjúkling um langan veg á spítala á höfuðborgarsvæðinu heldur yrði það gert á þennan hátt. Þetta er einnig einstaklega mikilvægt fyrir stað eins og Vestmannaeyjar, sem hafa verið algerlega samgöngulausar undanfarna sólarhringa við landið, þar sem sjúkraflug er því miður ekki nógu vel staðsett til að sinna því, þá gæti þetta aukið viðbragðið þar töluvert. (Forseti hringir.) Það er svona sem þetta er gert í öllum nágrannalöndum okkar og víðar.