146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

lyfjaneysla Íslendinga.

[16:06]
Horfa

Theodóra S. Þorsteinsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á að þakka hv. þingmanni og málshefjanda, Guðjóni S. Brjánssyni, fyrir frumkvæðið að umræðu um lyfjanotkun hér á landi og hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir greinargóð svör. Mikil lyfjanotkun virðist eiga rætur að rekja til þess að uppbyggingu og skipulagi heilbrigðiskerfisins er ábótavant. Við því hefur þegar verið brugðist, m.a. með því að móta stefnu á sviði geðheilbrigðismála.

Mig langar að beina sjónum mínum sérstaklega að geðheilbrigðismálum. Í geðheilbrigðisáætlun er gert ráð fyrir að fjölga stöðugildum sálfræðinga í heilsugæslunni. Hluti þess er einnig að stytta biðtíma eftir þjónustu göngudeilda barna- og unglingageðdeildar Landspítalans og innleiða verkefni sem ber yfirskriftina Tölum um börnin/Fjölskyldubrúin sem miðar að því að draga úr hættu á að geðheilsuvandi flytjist milli kynslóða.

Samspil heilsugæslunnar og almennings skiptir líka gríðarlega miklu máli. Að mínu mati er líklega mikilvægasta verkefni ríkis og sveitarfélaga að leggja áherslu á heilsueflingarsjónarmið, þekkingu og meðvitund einstaklinga um hreyfingu, mataræði og ýmsa kvilla í stað lyfja. Það er stóra verkefnið sem blasir við okkur öllum. Við þurfum að leggjast á eitt um að auka heilsulæsi almennings og þekkingu á alls kyns úrræðum sem standa til boða til að auka heilsu fólks og viðhalda heilbrigði.

Um þessar mundir stendur yfir vitundarvakning Pieta-samtakanna sem beita sér fyrir forvörnum gegn sjálfsvígum. Á hverju ári taka yfir 40 manns líf sitt. Það er meira en tvöfaldur sá fjöldi sem lætur lífið í umferðarslysum.

Af því að tími minn er búinn langar mig að hvetja fólk til að taka þátt í göngu Pieta-samtakanna aðfaranótt laugardags þar sem ganga á úr myrkri næturinnar inn í ljós morgunsins til að sýna stuðning við málstaðinn og taka þátt í þeirri hvatningu sem felst í því að við gerum betur á þessu sviði og hjálpum fólki að halda lífi.