146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

greiðsluþátttaka sjúklinga.

[16:37]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Frú forseti. Síðustu fundir velferðarnefndar hafa farið í að taka á móti gestum og gefa þeim tækifæri til að koma athugasemdum sínum um ríkisfjármálaáætlun á framfæri. Það sem kemur síendurtekið fram á þeim fundum eru áhyggjur gesta yfir auknum verkefnum sem fylgja ekki nægilegt fjármagn til að framfylgja. Verkefni eins og nýja greiðsluþátttökukerfið eru mörg hugsuð til hagræðingar fyrir framtíðina en vegna skammsýni, skipulagsleysis og skorts á stefnumótun eru verkefnin vanfjármögnuð og munu þar af leiðandi ekki geta skilað tilsettum árangri. Þvert á móti veikir þetta opinbera heilbrigðisþjónustu og sendir reikninginn inn í framtíðina.

Nýja greiðsluþátttökukerfið, ef það verður nægilega vel fjármagnað, á eflaust eftir að hjálpa mörgum sem eiga við erfiða og langvarandi sjúkdóma að stríða, en á sama tíma þá hækkar það töluvert kostnaðinn fyrir þá sem þurfa á minni þjónustu að halda. En er þetta nóg? Hvað með lyfjakostnaðinn, sálfræðikostnað og tannlæknakostnað sem ekkert er verið að tækla? Samkvæmt skýrslu OECD er hlutfall ríkisins í lyfjakostnaði með því lægsta sem gerist í aðildarríkjum OECD. Er þetta heilbrigðisþjónustan sem Íslendingar hafa ítrekað kallað á eftir?

Frú forseti. Þetta er ekki nægilegt gott. Í stefnu Pírata kemur fram, með leyfi forseta:

„Öll eigum við rétt á bestu mögulegu heilsu. Píratar standa vörð um þessi sjálfsögðu mannréttindi og stefna að því að heilbrigðisþjónusta og nauðsynleg lyfjakaup verði gjaldfrjáls og aðgengileg öllum, óháð búsetu. Við viljum stórbæta aðbúnað og kjör heilbrigðisstarfsfólksins okkar og stöðva fjársvelti heilbrigðiskerfisins. Píratar vilja lögfesta rétt allra til bestu mögulegu heilsu með nýrri stjórnarskrá.

Tann- og geðheilsa eru órjúfanlegur þáttur í heilsu einstaklinga sem ber ekki að aðskilja frá almennri heilbrigðisþjónustu. Píratar stefna að því að þjónusta sálfræðinga og tannlækna verði hluti af almannatryggingakerfinu líkt og önnur heilbrigðisþjónusta.

Við höfum alla burði til að reka hér framúrskarandi heilbrigðisþjónustu fyrir alla landsmenn.“

Ef við bara erum tilbúin til að breyta aðeins til getum við fjármagnað endurreisn heilbrigðiskerfisins með sanngjarnri auðlindarentu, verðmætaaukningu í formi nýsköpunar og kerfisbreytingu sem felur í sér réttlátari (Forseti hringir.) skattbyrði í þjóðfélaginu. Þetta getum við gert, en við þurfum þá að kjósa að gera það.