146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

landgræðsla.

406. mál
[18:42]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir mjög góða ábendingu. Því er til að svara að þetta hefur ekki verið skoðað á sama hátt og þess vegna er það ekki eins sett fram í bálkunum tveimur. Þó er það þannig að samkvæmt reglugerð má ráðherra ákvarða hvernig þessi stuðningur fer fram og getur svo sem horft á þau atriði og gætt samræmis þarna á milli, eins og hv. þingmaður nefnir. Ég tel mjög mikilvægt að við gerum það, að við séum ekki í einskiptisaðgerðum í landgræðslu og séum með tímaplan þar, hugsum þetta til langs tíma og gerum jafn vel og í skógræktinni þegar við höfum séð t.d. að verkefni eins og Bændur græða landið virka alveg afskaplega vel. Við eigum að stuðla að því að hagsmunaaðilar, m.a. bændur og Landgræðslan, vinni vel saman að því sameiginlega markmiði. Ég tek þessa ábendingu hv. þingmanns til skoðunar.