146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

einkavæðingaráform ríkisstjórnarinnar.

[10:40]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P):

Virðulegur forseti. Það voru nú ekkert sérstaklega gleðilegar fréttir sem ég fékk í morgunsárið eins og aðrir landsmenn, að til stæði að einkavæða Fjölbrautaskólann við Ármúla. Ég verð samt að segja að þó að það hafi verið eins og köld vatnsgusa þá kemur hún ekki á óvart miðað við forsöguna. Það vekur athygli mína að haft er eftir ráðherranum að þarna sé verið að skoða ýmsar leiðir til að bregðast við fækkun nemenda á framhaldsskólastigi. Ég vil benda á að Tækniskólinn er stærsti skóli á Íslandi með yfir 2.000 nemendur. Fjölbrautaskólinn í Ármúla er með u.þ.b. 900 nemendur plús einhverja í fjarnámi. Fjölbrautaskólinn við Ármúla hefur verið rekinn hallalaust í mörg ár. Er verið að færa feitan bita í kjaft einkavædda Tækniskólans eða hvað? Hvað verður næst? Nú sýnist mér að Kristján Þór Júlíusson sé orðinn að útfararstjóra íslenska ríkisrekna (Forseti hringir.) framhaldsskólakerfisins og hann er núna að veita því nábjargirnar. Það er sorglegt.