146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

einkavæðingaráform ríkisstjórnarinnar.

[10:45]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Ég verð eins og aðrir hv. þingmenn að fordæma þau vinnubrögð hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra að við fáum að frétta það í fréttum RÚV að til standi að einkavæða einn af okkar bestu framhaldsskólum. Hér er verið að afhenda atvinnulífinu eitt stykki fjölbrautaskóla án þess að við fáum einu sinni að vita um það. Hæstv. ráðherra hefði að sjálfsögðu átt að taka það frumkvæði að upplýsa allsherjar- og menntamálanefnd um þessi áform sín og hef ég ásamt öðrum hv. þingmönnum í minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar óskað eftir fundi með hæstv. ráðherra þar sem hann geri grein fyrir því af hverju hann kaus að upplýsa ekki nefndina um þetta og hvernig standi á því að við fáum bara að frétta það í gegnum morgunfréttir RÚV að til standi að standa að enn einni einkavæðingarframkvæmdinni í menntakerfinu. Þetta er náttúrlega algjörlega forkastanlegt og á ekki að líðast.

Ég spyr: Hvar eru þau bættu vinnubrögð sem áttu að koma með þessari nýju stjórn?