146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

einkavæðingaráform ríkisstjórnarinnar.

[10:59]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P):

Virðulegur forseti. Þessi vinnubrögð eru alveg hreint með ólíkindum. Hér finnur framkvæmdarvaldið sér fjallabaksleið fram hjá Alþingi og fram hjá almenningi. Það er óþolandi. Hér er okkur stillt upp, við stöndum frammi fyrir orðnum hlut eða því sem næst. Ég vil minna á að þegar ákveðið var að stytta bóknám, þ.e. nám til stúdentsprófs, niður í þrjú ár var því haldið fram að framlög til framhaldsskólanna myndu ekki skerðast við það. Þess vegna finnst mér þessi sameining undarleg, ekki síst í ljósi þess að þetta eru ekkert sérstaklega eðlislíkir skólar. Fjölbrautaskólinn við Ármúla býður upp á heilbrigðisnám. Það fer lítið fyrir því í Tækniskólanum. Fjölbrautaskólinn við Ármúla er fyrst og fremst bóknámsskóli á meðan Tækniskólinn er fyrst og fremst tæknigreinaskóli.

Ég spyr mig líka: Hvaða skólar verða næst? Hvað verður um alla litlu skólana úti á landi ef þetta er sú stærð af hagstæðri rekstrareiningu sem við erum að tala um, rúmlega 3 þúsund manna skóli? Þá þarf að sameina miklu fleiri skóla hér á landi, það er bara þannig. Það er sorglegt.