146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

einkavæðingaráform ríkisstjórnarinnar.

[11:03]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé kominn tími til þess að forseti kalli þingflokksformenn á sinn fund. Við sjáum hér trekk í trekk að ráðherrar sinna ekki lögbundinni skyldu sinni um upplýsingagjöf til Alþingis. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Þetta er lögbundin skylda og ráðherrum ber að svara þegar spurt er. Í umfjöllun hæstv. menntamálaráðherra um fjármálaáætlun, það prýðisplagg, kom ekkert fram um að það ætti að einkavæða svo sem eins og einn skóla, plús/mínus. Hvað er næst? Það stendur ekkert um þetta í fimm ára fjármálaáætlun. Þá verð ég að fá að vita, sem þingflokksformaður fyrir minn flokk: Til hvers er þessi áætlun? Af hverju svara ráðherrar ekki? Af hverju sinna ráðherrar ekki upplýsingaskyldu sinni gagnvart Alþingi betur en raun ber vitni? Af hverju horfum við trekk í trekk (Forseti hringir.) upp á það að svona vinnubrögð eru stunduð?

Forseti. Ég krefst þess að fá fund með forseta sem fyrst um þetta mál.