146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[13:28]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir prýðilegar fyrirspurnir sem koma að kjarna málsins sem snýr að framtíðarsamskiptum okkar við Breta.

Það sem ég lagði áherslu á á fundum mínum með breskum ráðamönnum var að við yrðum framarlega í röðinni þegar að þessu kæmi og öll skilaboðin sem ég fékk frá ráðherrunum voru á þann veg að það myndi ganga eftir.

Þegar kemur að markaðsaðgangi fyrir sjávarafurðir held ég að þegar menn ræða almennt um fríverslunina trufli það okkur ekki neitt, ef við metum það á annað borð þannig að við þyrftum að verja einhverja markaði, ef það væri frjáls aðgangur með sjávarútveg fram og til baka. Við höfum verið mjög frjálslynd þegar kemur að því.

Nú er það þegar þannig að við erum búin að gera samning við Evrópusambandið um fríverslun um landbúnaðarafurðir. Hann hefur ekki tekið gildi vegna þess að Evrópusambandið hefur ekki fullgilt hann. Við höfum því stigið skrefin hvað það varðar. Bretland er hugsanlega mikilvægasti markaður okkar í Evrópu þannig að það á eftir að útfæra (Forseti hringir.) þessa hluti alla saman. Menn eru ekkert byrjaðir á neinum samningaviðræðum. En við höfum nú þegar stigið þessi skref gagnvart Evrópusambandinu.