146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[14:53]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit eiginlega ekki hvar ég á að byrja. Mér fannst þessi ræða hv. þingmanns einhvern veginn úr öllu samhengi og úr öllum takti við það sem er almennt að gerast í Evrópu. Það er eins og þingmaðurinn hafi misst af nokkrum fréttatímum undanfarið.

Síðast í gær var einn af forsetaframbjóðendum Frakklands að tala um það að ef Evrópusambandið breyttist ekki þá sæju menn fram á Frexit, þ.e. að Frakkar færu að ræða það að fara úr Evrópusambandinu. Á sama tíma eru menn í Hollandi að ræða það að Evrópusambandið verði að breytast annars sé hætta á því að Hollendingar fari úr Evrópusambandinu. Þetta er það Evrópusamband sem hv. þingmaður vill endilega teyma Ísland inn í. Evrópusambandið sem allir eru að kalla á að breytist, Evrópusambandið sem sumir eru að flýja eins og Bretar, ekki vegna þess að þeir vilji einangrunarhyggju heldur vegna þess að Evrópusambandið er einangrunarhyggjusamband. Innan Evrópusambandsins ertu undir þeim lögum að þú getur ekki gert frjálsa samninga. Evrópusambandið gerir alla samninga fyrir þig, þú afsalar þér þeim rétti.

Ísland er utan Evrópusambandsins í dag og vonandi verður Bretland það innan tveggja ára, hv. þingmaður kallar það einangrunarhyggju. Ég spyr þá á móti hvort Japan sé einangrunarhyggjuríki af því það er ekki aðili að Evrópusambandinu og einhverjum slíkum samböndum? Er Brasilía einangrunarríki af því að hún er ekki aðili að fjölþjóðasamtökum?

En bíddu — nota bene — Ísland er aðili að fullt af alþjóðasamtökum og fjölþjóðlegum stofnunum. Ísland tekur þátt í hinum og þessum fjölþjóðlegum verkefnum út um allan heim án þess að vera í Evrópusambandinu.

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann: Hvað er að í Evrópusambandinu? Getur verið að það sem er að í Evrópusambandinu sé til dæmis evran sem langflestir hagfræðingar vara við og segja að sé ónýtur gjaldmiðill? Getur verið að það sem er að í Evrópusambandinu sé það mikla atvinnuleysi sem hefur hrjáð sambandið og sérstaklega ungt fólk um langan tíma? Getur verið að það sem sé að í Evrópusambandinu sé það að þar ráða þjóðkjörnir þingmenn í raun ekki og kalla eftir því, t.d. í Portúgal, að meiri völd verði færð aftur frá Brussel til þjóðþinganna? Getur verið að það sé eitthvað að í Evrópusambandinu? Getur verið að Evrópusambandið hafi áttað sig á því í fyrra eða hittiðfyrra að kannski þarf að vinda aðeins ofan af þessum lagabálkum sem Evrópusambandið hefur sett að (Forseti hringir.) óþörfu og skipað til þess sérstakan kommisar, fyrrverandi utanríkisráðherra Hollands, Franz Timmerman?