146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[14:55]
Horfa

Jóna Sólveig Elínardóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég get ekki séð hvernig í ósköpunum það getur verið neikvætt að Evrópusambandið sé að breytast. Hefur Evrópusambandið ekki verið að breytast frá því að það var stofnað? Ég spyr að sama skapi: Hefur Ísland ekki verið að breytast frá því á sjötta áratug síðustu aldar? (Gripið fram í.) Hefur Ísland ekkert breyst frá því þá? Það er eðlilegt að ríki og ríkjasambönd breytist og þróist til að mæta breyttum þörfum, breyttum aðstæðum. Þó það nú væri. Það væri nú eitthvað að ef Evrópusambandið reyndi ekki að breytast og þróast til þess að mæta þörfum borgaranna, það væri nú eitthvað sérstakt samband, stöðnunarsamband. Ég held að enginn myndi vilja vera partur af slíku sambandi. Þess vegna nákvæmlega er það að reyna að breytast til þess að mæta þörfum og því sem borgararnir vilja. Þess vegna þróast Evrópusambandið. Ég skil ekki: Er hv. þingmaður á móti framþróun? Hvað er hann að tala um?

Ég held líka að hv. þingmaður verði aðeins að hafa í huga af hverju í ósköpunum Evrópusambandið kom til. Af hverju varð Evrópusambandið til? Evrópusambandið varð ekki bara til til að stunda viðskipti, heldur til að tryggja frið í álfunni, til að tryggja að við myndum ekki þurfa að horfa aftur upp á sama hildarleik og hörmungar og ríki Evrópusambandsins, og Ísland fann líka fyrir þessu, þurftu að ganga í gegnum á sínum tíma. Það er ástæðan fyrir því að Evrópusambandið varð til. Ég skil þess vegna ekki þá djúpstæðu fyrirlitningu sem mér finnst einhvern veginn birtast hér í orðum þingmanns gagnvart Evrópusambandinu.

Evran hefur reyndar reynst mun stöðugri gjaldmiðill, af því að hv. þingmaður kom inn á hana, en krónan. Hvar er krónan núna? Hún sveiflast eins og laufblað að hausti og hvað? Er mögulega að fara að detta af trénu. Hvað vitum við? Hagvöxtur er að aukast innan Evrópusambandsins. Það hefur dregið úr atvinnuleysi innan Evrópusambandsins. Það er staðreynd. (Forseti hringir.) Ég spyr síðan, af því að hv. þingmaður finnur Evrópusambandinu allt til foráttu, Evrópusambandinu sem við erum reyndar aukaaðili að, (Forseti hringir.) það er bara staðreynd: Er hann að leggja til að við göngum úr EES sem tryggir okkur aukaaðild að Evrópusambandinu?