146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[15:25]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir ágætisskýrslu og yfirlit um utanríkismál. Ég átti síðast orðastað við hæstv. utanríkisráðherra um utanríkismál held ég fyrir 33 árum í menntaskóla. Þó að við höfum kannski nálgast hvor annan örlítið á þeim tíma erum við samt enn þá ósammála um ýmislegt. (Gripið fram í.) Eitt af því eru kostir og gallar Evrópusambandsins.

Í skýrslunni er uppljóstrað um nýja sýn á íslenska utanríkispólitík sem ég kannast a.m.k. ekki við. Þar segir, með leyfi forseta:

„Nú, þegar umræðan hér á landi um viðskiptastefnuna er að mestu laus úr viðjum kröfunnar um aðild að Evrópusambandinu, er full þörf á að styrkja starf okkar innan EFTA og EES.“

Hvað ráðherrann á nákvæmlega við með þeim orðum er ekki gott að segja því í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir, með leyfi forseta:

„Komi fram þingmál um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður við Evrópusambandið eru stjórnarflokkarnir sammála um að greiða skuli atkvæði um málið og leiða það til lykta á Alþingi undir lok kjörtímabilsins.“

Þar að auki er flokkur ráðherra í samstarfi við tvo flokka sem beinlínis settu þjóðaratkvæðagreiðslu um að halda áfram aðildarviðræðum við ESB á dagskrá fyrir nokkrum mánuðum.

Þýðir þetta að þeir flokkar hafa endanlega gefið eftir óskina um slíka atkvæðagreiðslu? Það væri gott ef þeir svöruðu því í umræðunni og þeir hafa gert það að miklu leyti. Ég leyfi mér að rifja upp orð formanns Bjartrar framtíðar sem í þessari sömu umræðu fyrir ári sagði, með leyfi forseta:

„Að lokum verð ég að vera ósammála hæstv. ráðherra um að það sé grundvallaratriði fyrir Ísland að standa utan efnahagsbandalaga. Spurningin um aðild að Evrópubandalaginu og umsókn um aðild að Evrópubandalaginu sem Alþingi samþykkti er auðvitað enn þá í gildi. Sú umræða verður áfram í íslensku samfélagi …“

Það er vissulega rétt hjá hæstv. ráðherra að ESB-aðild er kannski ekki á döfinni á næstu dögum en eins og segir í skýrslunni geta stjórnmál og viðskipti breyst með örskjótum hætti, eins og dæmin sanna. Því er full ástæða til að fylgjast vel með skipan heimsmála og útiloka aldrei nokkra möguleika á með hvaða hætti samskipti okkar við önnur ríki verða í framtíðinni. Það er rétt að rifja upp fyrir ráðherra að í gegnum EES-samninginn tökum við upp meiri hluta af öllum þeim reglum og tilskipunum sem frá ESB koma. Við höfum þó sáralítið að segja um hvers eðlis þær eru og ráðum illa við að laga þær að íslenskum hagsmunum. Þetta búum við við án þess að njóta þess besta sem ESB gæti fært okkur, gengisstöðugleika og lága vexti t.d.

Svo ég haldi áfram að rifja upp eru vextir á evrusvæðinu nálægt núllinu meðan vextir á íslenskum óverðtryggðum húsnæðislánum eru yfir 6%. Það er býsna þungur baggi fyrir heimilin í landinu, sérstaklega fyrir þá sem ekki ráða við íbúðakaup vegna hárra vaxta og eru fastir í fátæktargildru leigumarkaðarins. Þar er leigan líka mörkuð af allt of háum vöxtum. Upptaka evru myndi án efa auka stöðugleika helstu atvinnugreina okkar sem nú standa frammi fyrir auknum erfiðleikum í rekstri vegna sveiflna íslensku krónunnar, sveiflna sem sér ekki fyrir endann á.

Hið kaldhæðnislega er svo að greinin sem er talsverð ástæða gengisstyrkingarinnar, ferðaþjónustan, berst gegn áformum ríkisstjórnarinnar um að hækka virðisaukaskatt greinarinnar. Komið hefur fram hjá forráðamönnum ríkisstjórnarinnar að sú aðgerð sé ekki síst til þess hugsuð að stemma stigu við hækkandi gengi krónunnar. Vissulega er erfitt að þurfa með skömmum fyrirvara að auka álögur á grein í blússandi gangi, sem að öðrum ólöstuðum hefur bjargað okkur mest frá efnahagshruninu, en spurningin er hvað sé til ráða. Ekki vilja menn sjá ástand eins og áður tíðkaðist þegar gengið hafði náð sársaukamörkum útflutningsgreinarinnar og var fellt handvirkt af stjórnvöldum með tilheyrandi tilflutningi á fjármunum frá almenningi til þessara fyrirtækja. Það er því miður saga hinnar 99 ára gömlu krónu að hún hefur fallið um meira en 99% frá því að hún varð til. Vissulega hefur hún komið efnahagslífinu til bjargar á erfiðum tímum en rússíbanareið gjaldmiðilsins hefur gert íslensk stjórnvöld að einhvers konar viðbragðsapparati þar sem teknar eru ákvarðanir til að verja sérhagsmuni einstakra greina sem líða fyrir krónuna. Því miður er almenningur oftar en ekki leiksoppurinn. Hann líður oftast fyrir viðbrögðin.

Það hefur verið áberandi í allri umræðu um samskipti við umheiminn hversu svart/hvítt er talað á köflum. Nærtækast er að minnast þess hvernig umræðan var hér í þingsölum á 25 ára afmæli EES-samningsins. Þar var máluð ansi dökk mynd af þátttöku okkar í því samstarfi. Ég ætla í því sambandi að leyfa mér að vitna í ágætisupprifjun hv. þm. Guðjóns S. Brjánssonar úr störfum þingsins í gær, með leyfi forseta:

„Þung orð voru látin falla, jafnvel að sjálfstæðið myndi glatast. Hverjum dettur það í hug í dag? Hvarflar að nokkrum manni að Noregur sé ekki fullvalda ríki eða ESB-löndin, Danmörk, Svíþjóð og Þýskaland? EES-samningurinn hefur fært íslensku þjóðinni velsæld hvernig sem á það er litið. Efnahagslega, atvinnulega, félagslega og menningarlega. Dýrmæt tengsl eru á menntasviði og Íslendingar hafa notið mikilvægra vísinda- og menntastyrkja.“

Það segir enda réttilega í skýrslunni að samningurinn hafi virkað vel fyrir þau EFTA-ríki sem eigi aðild að honum, sem og ESB. Um þetta eru menn held ég almennt sammála. Eins töldu þingmenn Samfylkingarinnar almenna samstöðu vera um að breyta þyrfti stjórnarskránni til að styrkja stoðir þessa mikilvæga samnings með því að þingið samþykkti nýtt ákvæði um alþjóðasamvinnu. Ákvæði um slíkt var þó dregið til baka af síðustu ríkisstjórnarflokkum á lokametrum í vinnu stjórnarskrárnefndar á síðasta þingi. Það var slæmt, því að við þurfum að treysta mikilvægustu alþjóðasamninga okkar í sessi.

En þótt EES-samningurinn sé okkur lífsnauðsynlegur þurfum við líka að vera vakandi fyrir nýjum aðstæðum. Óvíst er hvaða áhrif Brexit hefur á afstöðu Evrópusambandsins gagnvart samningum við þjóðir sem ekki taka fullan þátt í Evrópusambandinu, í samvinnunni. Við þekkjum vandræðin sem voru með innleiðingu EES-samnings fyrir litla þjóð. Þau fólust fyrst og fremst í því að við höfum lítinn mannafla og erum verr í stakk búin til að hafa áhrif á þá löggjöf sem hér er upp tekin á grundvelli hans. Samanburðurinn við Noreg, sem er líka smáríki, er sláandi. Þeir hafa meiri mannafla, eðlilega, og geta reynt að hafa áhrif á löggjöfina miklu fyrr.

Ég er sammála hv. formanni utanríkismálanefndar sem sagði fyrr í vetur að EES-samningurinn dygði varla til að tryggja hagsmuni Íslands gagnvart Evrópusambandinu. Við þurfum að hugsa um það. Þá má ekki gleyma því að innan vébanda ESB hefðum við sjálfkrafa aðild að bestu viðskiptasamningum um heim allan, en með núverandi fyrirkomulagi erum við neydd til að dreifa kröftunum miklu meira en ella. Þetta kemur ágætlega fram í skýrslunni. Þar eru talin upp fjölmörg mjög nauðsynleg og góð verkefni sem Ísland er að vinna að. Sem dæmi voru Evrópusambandið og Bandaríkin hins vegar að vinna að gerð viðskiptasamnings, þótt kjör nýs Bandaríkjaforseta hafi því miður lokað þeim dyrum í bili, skilst mér. Loks eru ótalin ýmis rök fyrir aðild að Evrópusambandinu og nánu samstarfi við aðrar þjóðir. Þar má nefna sameiginlega sýn á mannréttindi, lýðræðismál, umhverfismál, friðarmál, flóttamannavanda, þróunaraðstoð, svo lítið sé nefnt.

Við getum nefnilega heldur ekki haldið áfram að vera hrædd við að leyfa þjóðinni að ráða för í Evrópumálum. Það er einfaldlega besta og réttasta leiðin til að leiða spurninguna um samningaviðræður við Evrópusambandið til lykta. Við getum ekki falið stórar pólitískar yfirlýsingar um að við séum að mestu laus úr viðjum aðildar að Evrópusambandinu inni í skýrslu af þessum toga. Við eigum að ræða málin fyrir opnum tjöldum. Ef þjóðin á ekki að fá að ráða för í Evrópumálum þá verður a.m.k. þingið að fá að ræða um það. Það er holur hljómur að segja að hluti af utanríkisstefnunni sé að standa vörð um lýðræðislegt þjóðfélag á sama tíma og pólitísk mál af þessum toga fá ekki þann framgang sem allir stjórnmálaflokkar hafa einhvern tíma lofað, þ.e. þjóðaratkvæðagreiðslu. Við stjórnmálamenn verðum einfaldlega að efna orð okkar betur ef við eigum á einhvern hátt að eiga möguleika á að ná aftur upp trausti í samfélaginu.

Við þurfum aukin samskipti við Evrópusambandið, sama hvort við stöndum innan þess eða utan. Við þurfum að nýta færin betur sem við höfum til að hafa áhrif í gegnum EES-samninginn. Þangað fer nefnilega langstærsti hluti útflutnings okkar. Sama má segja um Bretland sem er á leiðinni út úr sambandinu. Við í þinginu þurfum að fá að fylgjast grannt með því hvernig sambandi okkar við Breta verður háttað. Í skýrslunni eru sett fram mjög góð markmið en það skortir skýrari sýn. Ég hvet ráðherra til að greina þinginu jafnóðum frá því, og nú kannski, hvernig hann ætlar að verja viðskiptahagsmuni Íslands sem Brexit ógnar óneitanlega.

Aðeins frá Evrópusambandinu. Í skýrslunni er mjög margt gott um ýmislegt, m.a. um stöðu og markmið Íslands í alþjóðasamfélaginu. Hér hefur verið minnst á góð markmið þegar kemur að því að efla utanríkisviðskipti okkar. Eins eru sett fram mikilvæg markmið í öryggis- og varnarmálum sem snerta á auðlindum og umhverfi. Við þurfum að vera virkir þátttakendur á vettvangi Atlantshafsbandalagsins og í málefnum norðurslóða. Við þurfum áfram að vinna vel að innleiðingu og mótun þjóðaröryggisstefnu, en það er ánægjulegt að segja frá því að sú vinna hófst í tíð ríkisstjórnar Samfylkingar og VG og gott að henni sé enn haldið á lofti.

Þá verður að leggja þunga áherslu á baráttuna gegn hlýnun jarðar og á vernd hafsins. Þar verður Ísland að ganga fram með góðu fordæmi og við verðum að stíga sjálf alvöruskref hér heima til að minnka útblástur. Þeim þarf svo að fylgja eftir með alþjóðasamningum á alþjóðavettvangi.

Það má segja svipaða hluti um það sem stendur um þróunaraðstoðina. Þar eru sett fram mjög falleg markmið en rétt að undirstrika að það sama gildir um þetta og annað, þar þarf utanríkisráðherra að upplýsa þingið vel og skilmerkilega um niðurstöður og jafningjagreiningar á þróunaraðstoðinni og úrvinnslu hennar. Það var umdeilt þegar Þróunarsamvinnustofnun var lögð niður nýverið en hún hafði fengið nokkuð góða dóma fyrir störf sín og mikilsvert að gæði þróunarsamvinnunnar versni ekki við breytingarnar.

Það sem er þó merkilegast við umfjöllunina um þróunaraðstoð er það sem ekki stendur í henni. Það þarf að fara í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til að sjá hvar hjartað liggur. Þá kemur í ljós að ríkisstjórn og hæstv. ráðherra hafa engin áform um að Ísland fylgi markmiðum Sameinuðu þjóðanna sem leggja þær skyldur á herðar ríkustu og þróuðustu landa í heimi, sem við erum blessunarlega meðal, að veita 0,7% af þjóðartekjum í þróunarsamvinnu. Við náum ekki einu sinni 0,3% markinu og engin áform um að gera betur eru sýnileg. Þetta finnst mér fyrir neðan allar hellur. Nú þegar vel árar verjum við sama hlutfalli til þróunaraðstoðar og í miðri kreppunni. Það liggur fyrir þingsályktunartillaga frá 2013 sem var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum nema einu, held ég, um stóraukningu framlaga til málaflokksins en það gerist ekkert í því. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvernig réttlætir hann skammarleg lág framlög fyrir kollegum okkar erlendis þegar hann getur ekki einu sinni lofað bót og betrun hér hjá okkur á næstu árum?

Ef við værum að taka á móti mikið fleiri flóttamönnum liti þetta allt mikið betur út. Svo er ekki heldur.

Frú forseti. Ef við viljum að aðrir byggi upp samfélag á vestrænum grunngildum um lýðræði, mannréttindi, réttarríki og frjálst hagkerfi, viljum að aðrir beri virðingu fyrir og fari eftir alþjóðlegum samningum, sem eru grundvallarforsenda fyrir árangri í baráttunni gegn loftslagsbreytingum, flóttamannavandanum og fyrir því að heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna náist, verðum við að ganga fram með miklu betra fordæmi en við gerum. Sú gagnrýni er ekki aðeins beint að núverandi ríkisstjórn heldur er ég að tala um undangengin ár.

Samandregið þurfum við að auka framlög til þróunaraðstoðar. Við þurfum að taka á móti fleiri flóttamönnum. Við þurfum að styrkja tengsl okkar við Breta en líka við Evrópusambandið, sama með hvaða hætti það samband verður í framtíðinni. Við eigum fyrst og fremst að láta þjóðina ráða för í stórpólitískum utanríkismálum af þeim toga. Hún á að ráða hvort ljúka eigi aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Þeim lýkur ekki með yfirlýsingum eins og er að finna í skýrslunni.