146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[15:45]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við þurfum að fara að taka heildarmyndina. Ég hef lengi verið fylgjandi endurskoðun peningastefnunnar og ég er ánægður með að við séum að gera það. En ef við erum að tala um að vera í Evrópusambandinu verður að taka allan pakkann. Ég hafna því fullkomlega að menn þurfi að fara í aðildarviðræður til að kanna hvað sé í boði. Það er algerlega út í hött. Allir sem vilja vita hvað felst í að vera í Evrópusambandinu. Uffe Ellemann-Jensen sagði þetta bara um daginn, mjög skýrt, einn af mjög mörgum. Hann er mjög harður ESB-sinni. Allir sem vilja vita vita hvað felst í því. Ef menn trúa því að það sé betra fyrir Ísland eiga menn að berjast fyrir því. Ég er til í að taka þá umræðu hvar og hvenær sem er. Það er ekkert vandamál. Ég hef alltaf verið tilbúinn í það. Við eigum að ræða alla þessa hluti. Ef hv. þingmenn trúa á einhvern málstað eiga þeir bara að berjast fyrir honum. Að sjálfsögðu. Það að reyna að útskýra fyrir útlendingum að við höfum sótt um aðild að Evrópusambandinu til að kanna hvað sé í boði er áhugaverð upplifun, ég get alveg sagt ykkur það.

Aðalatriði máls er held ég þetta og ég brýni hv. þingmann í því: EES-samningurinn er góður samningur fyrir okkur. Við erum í mjög miklu og góðu samstarfi við Evrópuþjóðirnar, sem eru okkar vinaþjóðir, bandalagsþjóðir. Við skulum ekki tala EES-samninginn niður. Ef við erum að segja að hann dugi okkur ekki þurfum við að færa rök fyrir því. Ég hef ekki séð nein málefnaleg rök fyrir því, þvert á móti. Ég segi enn og aftur: Þetta eru vinaþjóðir okkar. Ég óska þeim alls hins besta, vona að menn vinni úr sínum málum. Ég vona að menn hafi skynsemi til þess, því að Bretar og Evrópuþjóðirnar hafa alveg sömu hagsmuna að gæta, að vinna úr þeim málum þegar ein þjóð ákveður að ganga út úr þessu tollabandalagi. Það er okkar hagur, það er allra hagur. Um þetta ættum við að geta (Forseti hringir.) verið sammála. Í guðs almáttugs bænum, ekki tala niður EES-samninginn.