146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[15:49]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætlaði að hrósa hv. þm. Loga Einarssyni fyrir bæði hugrekki og staðfestu í baráttu sinni fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu. Mér finnst aðdáunarvert að fulltrúi Samfylkingarinnar komi hér og tali einfaldlega eins og ekkert hafi gerst síðan utanríkisráðherra þess flokks var að reyna að koma Íslandi inn í Evrópusambandið á tímabilinu 2009–2013. Það er með vissum hætti aðdáunarvert að halda sig fast við þá stefnu, þótt aðstæður geti verið óhagstæðar að öðru leyti.

Ég velti fyrir mér, í ljósi þess að hv. þingmaður varði megninu af ræðutíma sínum í Evrópusambandsmálið, hvort hann geti upplýst okkur um hvernig hann meti stöðuna, möguleikana á því að Ísland verði aðili að Evrópusambandinu á næstu árum. Telur hv. þingmaður að pólitískar aðstæður hér á landi og í Evrópusambandinu gefi tilefni til að ætla að þetta stefnumið Samfylkingarinnar nái fram að ganga á næstunni?