146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[18:01]
Horfa

Jóna Sólveig Elínardóttir (V):

Virðulegur forseti. Ég vona að ég hryggi ekki hæstv. utanríkisráðherra þegar ég segi honum að ég ætla ekki í seinni ræðu minni að tala sérstaklega um Evrópusambandsmálin, þótt ég viti að hann hafi alveg jafn gaman af því að ræða þau mál við mig og ég hef af því að ræða þau við hann. Ég held að það sé vel og gott og ég tek undir það sem fram kom í máli hv. þm. Birgis Ármannssonar að fullt tilefni sé til þess að skoða hvort við getum ekki átt oftar umræðu um utanríkismál á vettvangi þingsins og jafnvel meira hlutaskipt eftir málefnasviðum. Ég held að það gæti verið málefnasviðinu, utanríkismálum, alþjóðamálum, til framdráttar að eiga markvissari umræðu um það í þingsal.

Mig langar í seinni ræðu minni að koma aðeins nánar inn á mannréttinda- og þróunarsamvinnumálin, því að ég hafði ekki tök á að gera það í fyrri ræðu minni í dag. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í fríverslunarsamninginn sem hefur verið í vinnslu milli EFTA-ríkjanna og Tyrklands og fjallað er um í kaflanum um fjárfestingarsamninga á bls. 40 í skýrslunni.

Nú er auðvitað öllum ljóst, og kom það fram í fyrri ræðu minni, að Tyrkland er á mjög hættulegri vegferð þegar kemur að mannréttindum tyrkneskra borgara og einræðistilburðir Tyrklandsforseta vekja sannarlega óhug. Mig langar þess vegna að spyrja hvort hæstv. ráðherra og ráðuneyti hans hafi eða muni taka það upp á vettvangi EFTA-ríkjanna og kanna hvort þau telji ástæðu til þess að ræða þetta ástand sérstaklega á fundum sínum um þennan fríverslunarsamning.

Þá er það þannig, því miður, að sú spurning læðist að manni hvort Tyrkland eigi samleið með okkur og bandalagsríkjum okkar í NATO. Mig langar að inna ráðherra eftir því og bið hann að deila með þingheimi sýn sinni á þau mál.

Ég sé og fagna því sérstaklega hversu hátt jafnréttismálum er áfram gert undir höfði og haldið á lofti í skýrslu ráðherra. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra, og það hefur verið komið inn á það í öðrum ræðum hv. þingmanna um réttindi hinsegin fólks, hvort hann telji ástæðu til að skoða sérstaklega að gera það með jafn markvissum og skilvirkum hætti og hefur verið gert í jafnréttismálum, að halda réttindamálum á lofti, að við séum alveg jafn samkvæm okkur sjálfum í málefnum hinsegin fólks og við höfum verið í jafnréttismálunum.

Tilefni spurningarinnar er að svo virðist sem staða hinsegin fólks versni iðulega þegar spenna og óstöðugleiki eykst eða átök fara að láta á sér kræla í samfélögum, eins og við sjáum núna. Það virðist sem hinsegin einstaklingar séu yfirleitt meðal þeirra fyrstu sem ber á ofbeldi eða áreiti gegn. Það er þess vegna sem ég færi þetta í tal og væri áhugavert að fá að heyra sýn hæstv. ráðherra á það.

Að lokum langar mig að biðja hæstv. ráðherra að koma nánar inn á þróunaraðstoðina. Mig langar að spyrja hvort hann hafi einhverja tilfinningu fyrir því hvernig við munum koma út úr jafningjarýni DAC og hvort hann getur deilt með okkur sýn sinni á það hvernig við getum fært okkur á markvissan hátt í átt að 0,7% markmiðinu. Telur ráðherra nauðsynlegt að vinna sérstaka eða uppfærða tímasetta áætlun um það hvernig og hvenær við ætlum að ná því markmiði?

Annars vil ég rétt í lokin þakka bæði hæstv. ráðherra og hv. þingmönnum fyrir virkilega góða og uppbyggilega umræðu í dag.