146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[18:09]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þetta svar. Þá er hins vegar spurningin hvort það sé nóg fyrir Viðreisn að vera einungis sammála um EES þótt ég telji það mæta samstarf vera mjög gott. Það er verið að ræða um að styrkja eigi Ísland innan Evrópska efnahagssvæðisins en það er ekkert í þessari skýrslu eða í fjármálaáætluninni sem ber þess merki að farið verði í styrkingu á þeim innviðum eða á því stuðningsneti sem við eigum að eiga þar. Þannig að: Er þetta nóg? Við ætlum að gera þetta vel en þá verðum við að horfa á þá staðreynd að 13 sendiráðsstarfsmenn í Brussel eru það eina sem á að gæta hagsmuna okkar innan EES, ef við getum sagt sem svo.

Nú er hv. þingmaður úr flokki hæstv. fjármálaráðherra. Þar var meðal annars skorið niður heilt stöðugildi í London þannig að fara þurfti í ákveðnar hrókeringar til að tryggja stöðu okkar hvað varðar Brexit, til að hafa sérfræðing þar. Það er eins og hægri og vinstri hönd séu ekki endilega að spila sama verk. Það er fínt að vilja ákveðna hluti, það er ágætt að við séum öll sammála um að EES sé til. En hugmyndirnar eru ekki að verða að veruleika. Það er það sem við sjáum hér. Er þetta nóg? Er nóg að við séum öll sammála um að EES sé hið ágætasta fyrirbæri ef svo má segja? Erum við að gera nóg? Er Viðreisn að gera nóg? Stendur Viðreisn vörð um hagsmuni Íslands innan Evrópska efnahagssvæðisins sem við dáum svo mjög?