146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

norræna ráðherranefndin 2016.

474. mál
[18:30]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Í fjarveru samstarfsráðherra mæli ég fyrir skýrslu um þátttöku okkar Íslendinga í norrænu samstarfi á vettvangi norrænu ráðherranefndarinnar árið 2016. Norræna samstarfið eins og það fer fram samkvæmt Helsinkisáttmálanum er mjög umfangsmikið og fer fram í tíu fagráðherranefndum. Flestir ráðherrar ríkisstjórnar Íslands taka þar þátt ásamt norrænum kollegum sínum.

Í skýrslu sem þessari er ekki hægt að gera öllu því starfi tæmandi skil. Til þess þyrfti sjálfsagt tíu sjálfstæðar skýrslur. Markmið þeirrar skýrslu sem hér er til umfjöllunar er miklu fremur að gefa Alþingi innsýn í það sem alla jafna er kallað hið formlega, norræna samstarf og rekur sig allt aftur til ársins 1971 þegar norræna ráðherranefndin var stofnuð.

Við Íslendingar höfum gríðarlega mikinn ávinning af því að taka þátt í þessu samstarfi. Framlag okkar til þess í fjármunum talið er lítið miðað við allt það sem við fáum til baka.

Finnar tóku við formennsku af Dönum í upphafi ársins og lögðu upp með formennskuáætlun sem bar yfirskriftina Vatn, náttúra og mannfólk. Þeir lögðu meðal annars áherslu á að efla norrænt samstarf um stafræna þróun en það verður Norðurlöndum nú æ hugleiknara að freista þess að leita sameiginlega stafrænna lausna á margvíslegum viðfangsefnum samfélagsins. Það er reyndar kjarni norræns samstarfs að treysta á norrænan samtakamátt til þess að leysa í sameiningu verkefni sem öll löndin þurfa að takast á við.

Aukið samráð Norðurlanda hvað Evrópumál varðar var einnig sérstakt áherslumál Finna á formennskuárinu. Það var í samræmi við yfirlýsingu norrænu forsætisráðherranna þar um. Liður í því er m.a. að efla samráð um innleiðingu ESB-tilskipana áður en til lögleiðingar kemur í ESB-löndunum þremur og EES-löndunum tveimur. Náist slíkt samstarf að styrkjast verulega standa vonir til að hægt sé að koma í veg fyrir að nýjar landamærahindranir skapist á norrænu landamærunum. Afnám landamæra- eða stjórnsýsluhindrana var einnig eitt af forgangsmálum Finna. Hér er á ferðinni málefni sem hefur verið efst á baugi í norrænu samstarfi undanfarin 15 ár í það minnsta. Öflugt starf og árangur á þessu sviði eru talin ein mikilvægasta forsenda þess að Norðurlönd geti náð því markmiði sínu að verða aðlaðandi efnahagssvæði innan Evrópu.

Miklar sviptingar áttu sér stað í heimsmálum á árinu sem höfðu að vonum áhrif á Norðurlönd, þar með einnig á norræna samstarfið. Flóttamannastraumurinn hitti Norðurlönd fyrir með misjafnlega alvarlegum hætti og hvert þeirra þurfti að takast á við margvísleg og flókin verkefni sem af honum leiddi. Snemma á árinu var ákveðið að snúa hinum norrænu bökum saman í málinu og reyna eftir fremsta megni að finna sameiginlegan vettvang fyrir skoðanaskipti og viðbrögð við þeim vanda sem við blasti. Norræna ráðherranefndin var kjörinn vettvangur fyrir jafnt formlegt sem óformlegt norrænt samstarf. Á þeim bæ var brugðist hratt og vel við. Síðla árs var búið að móta og samþykkja norræna samstarfsáætlun um málið og þeir ráðherrar sem fara með málefni flóttafólks og aðlögun innflytjenda áttu með sér óformlegan fund þar sem þeir sammæltust um að stórefla norrænt samstarf á þessu sviði.

Með nýrri forgangsröðun innan norrænu fjárlaganna var unnt að tryggja samstarfsáætlun nauðsynlegt fjármagn. Hér er á ferðinni ágætisdæmi um þann sveigjanleika sem einkennir störf norrænu ráðherranefndarinnar þó svo að margt sé þar vissulega í mjög föstum skorðum. Í lok árs 2016 lauk formennskuverkefnum Íslands sem hófust á formennskuárinu 2014. Þau eru: Norræna lífhagkerfið, Biophilia, norræni spilunarlistinn og norræna velferðarvaktin. Mjög góður rómur hefur verið gerður að íslensku verkefnunum og litið er til þeirra sem fyrirmyndar um hvernig eigi að standa að slíku verkefnastarfi.

Ísland tekur næst við formennsku í ráðherranefndinni í byrjun árs 2019 og er undirbúningur þegar hafinn hjá ráðuneytunum. Okkur gefst þá kostur á að hafa frumkvæði að stórum og pólitískt mikilvægum verkefnum sem unnin verða í góðu samstarfi við félaga okkar annars staðar Norðurlöndum.

Forseti. Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um skýrsluna. Hún talar sínu máli. Hvet ég þingmenn eindregið til að kynna sér efni hennar.