146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

landgræðsla.

406. mál
[16:27]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Hún var — fyrirgefið, mér finnst alltaf svo fyndið þegar við þingmenn og ráðherrar leggjum mat á ræður hinna, ég ætla að reyna að forðast að segja að hún hafi verið góð eða vond, hún var upplýsandi fyrir mig og mér fannst hún fín í þessa umræðu. Ég ætla að leyfa mér að segja það.

Hv. þingmaður nefndi stuðning við landgræðslu og mismun á því hvernig því er háttað með skógræktina og svo landgræðsluna, verkefni sem við þekkjum eins og Bændur græða landið og fleiri sem hafa gengið mjög vel. Ég heyrði að hv. þingmaður kallaði eftir því að það yrði fært betur í lög hvernig þessum stuðningi yrði háttað og hvernig við gætum aukið við hann. Ég er sammála honum í því og ég held að við séum allflest sammála um að það sé mjög mikilvægt að gera það í tengslum við loftslagsmálin.

Þá langar mig að benda hv. þingmanni á 8. gr. í sambandi við þennan stuðning við landgræðslu þar sem stendur neðst:

„Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um stuðning við landgræðslu og form samninga.“

Það er vissulega hægt að útfæra þetta nánar og ég hyggst gera það því að það er mín sýn að Landgræðslan geti hjálpað okkur mikið hvað varðar loftslagsmálin.

Hv. þingmaður kom inn á samráðið í loftslagsmálunum. Hann og aðrir í stjórnarandstöðuflokkum mega búast við því að fá bréf frá mér eftir helgi þar sem við biðjum hvern flokk um að tilnefna í svokallaðan samráðshóp sem faghópar um hvert málefnasvið leita í. Ég vonast til þess að sá hópur, (Forseti hringir.) þar sem atvinnulífið verður líka og ýmsir aðrir haghafar, geti unnið ágætlega vel í sumar.