146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

landgræðsla.

406. mál
[16:29]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra upplýsingarnar. Hún má ekki misskilja mig með samráðið, ég hafði engar væntingar til annars en að ráðherra myndi hafa samráð við stjórnarandstöðuna. Það er hins vegar orðið þannig, og auðvitað er það pólitískur leikur, að þegar búið er að tala um það af hálfu flokks hæstv. umhverfisráðherra, og ekki síður, og kannski enn fremur, flokks hæstv. fjármálaráðherra, um að nú sé alveg sérstaklega mikilvægt að vanda stjórnsýsluna, hafa aukið gegnsæi og mikið samráð, ekki síst við stjórnarandstöðuna í ljósi lítils meiri hluta stjórnarinnar, hefur það vakið eftirtekt að það er mjög mikið talað en lítið gert. Ég hefði alveg eins búist við því að eitthvað stæði á bak við þau orð sem hæstv. umhverfisráðherra lét falla hér fyrir helgi, benti bara á að það er oft hægara sagt en í að komast þegar menn vilja koma á raunverulegu samráði og samvinnu.

Varðandi hitt atriðið var ég auðvitað búinn að taka eftir því, og fannst einmitt jákvætt, að það ætti að gera skriflega samninga um samstarfsverkefni og að ráðherra geti í reglugerð sett nánari ákvæði um stuðning, bæði við landgræðslu og form samninga, og tel að þarna sé tækifæri til þess. Ég held þó allra hluta vegna að nauðsynlegt væri að það kæmi skýrar inn í frumvarpið um landgræðslu að ríkisvaldið hygðist standa betur við bakið á þeim sem stunda landgræðslu vegna þess að þeirra starf er ákaflega mikilsvert.