146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

skógar og skógrækt.

407. mál
[17:15]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna þessum orðum hæstv. ráðherra. Ég er sama sinnis. Mér finnst það einboðið að við eigum að ætla skógrækt og landgræðslu og annars konar endurheimt landgæða stóran hlut í aðgerðum okkar; og að sjálfsögðu afla því viðeigandi viðurkenningar. Það þarf að byggja það á fræðilegum og faglegum grunni þannig að við séum ekki að reyna að kaupa okkur ódýrt far með því heldur liggi þar raunverulegar rannsóknir að baki. Ég held til dæmis að það sé óumflýjanlegt að fara í meiri grunnrannsóknir á því hvaða árangri endurheimt votlendis skilar. Það er of mikill vísindalegur vafi uppi um það annars vegar til skemmri tíma og hins vegar til lengri. Það þarf að leggja í það peninga og vinnu að fá betri rannsóknir á því.

Hitt er betur þekkt hverju það skilar að rækta skóga og endurheimta gróðurþekju. Það er alveg rétt, skógurinn þekur ekki stóran hluta landsins, eiginlegur skógur ef svo má kalla. Ég hef að vísu þá tilfinningu að náttúran sé nú býsna drjúg þessi árin og skógur víða í framför og að breiðast út með sjálfsáningu. Þar kemur líka til hlý veðrátta og það að beitarálag hefur minnkað mikið. En þessari þróun væri til dæmis hægt að hjálpa með gróðureyjum og fræbönkum á svæðum þar sem aðstæður eru til slíks.

Þetta er allt saman gott svo langt sem það nær, en eftir stendur hin spurningin, sem hæstv. ráðherra kom ekki beint inn á, og það er spurningin um fjármuni. Hvað sér hæstv. ráðherra fyrir sér að við getum lagt í þetta á komandi árum? Er ríkisstjórnin búin að meta það eitthvað, sú nýja? Höfðu menn tíma til að áætla eitthvað fyrir þessu inn í þá fjármálaáætlun sem hér er á dagskrá núna? Eða er (Forseti hringir.) þess að vænta að ári, á grundvelli þeirrar vinnu sem er í gangi þetta árið?