146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

skógar og skógrækt.

407. mál
[17:22]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Frú forseti. Hér stígur enn einn úr flokki Vinstri grænna til að leggja fram þá skoðun að þetta sé jákvætt frumvarp og jákvæð framlagning laga með þeim átta markmiðum hér sem eru ágæt. Ég vek sérstaklega athygli á e-lið þar sem segir að skógrækt verði í samræmi við skipulagsáætlanir og náttúruvernd, þá sérstaklega 2. og 3. gr. laga um náttúruvernd sem verndarmarkmið. Allt þetta er mjög gott og ágætt, synd að frumvarpið komi svona seint fram þó. Ég ætla að fjalla um nokkur atriði og geri mér grein fyrir því að frumvarpið er lagt fram til að sníða af ýmsa agnúa og færa til nútímans, eins langt og það er hægt með þessu, en þetta verða bæði einhverjar hugvekjur og spurningar eins og gengur.

Í samtölum mínum við Skógræktina eftir að þetta frumvarp var lagt fram kom fram að stöðugleiki skipti þessa grein rosalega miklu máli. Eftir efnahagshrunið kom gríðarlegt bakslag í skógræktina. Þar sem áður voru um 2.000 hektarar sem var plantað í á ári eru nú 1.000 hektarar og þannig hefur það verið í sjálfu sér áfram þessi sjö, átta ár sem eru liðin frá hruninu eða eftirmála hrunsins. Okkur hefur ekki tekist að bæta verulega í enn þá. Það sýnir einfaldlega að það er þörf á því og enn fremur að sá stöðugleiki fái að haldast í einhverju horfi sem allra lengst þannig að árangurinn verði góður.

Í öðru lagi er skógrækt náttúrlega óskaplega jákvæð aðgerð í loftslagsmálum. Það kom fram í þessum samtölum að ef gróðursetning væri fjórfölduð fyrir 300–400 millj. kr., það er ekki mjög há upphæð, þá myndi binding nema um 1 milljón tonna af kolefnisígildum á ári, þ.e. um 1/5 af losun okkar fyrir utan losun frá auðnum og votlendum. Menn sjá á því að þarna væri tiltölulega ódýr aðgerð sem myndi hjálpa verulega, burt séð frá öllum samkomulögum, bara einfaldlega hjálpa loftslaginu verulega með þetta mikilli bindingu, 1 milljón tonna.

Þá hugsar maður um ríkisfjármálaáætlunina, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kom inn á. Það er lítið rúm þar. Ég myndi sjálfur taka þá afstöðu að ríkið tryggði í raun og veru slíka fjármuni, hundruð milljóna, til svona verkefnis, en það sem kæmi þá frá stóriðjunni eða notendum í gegnum græna skatta eða hvað það væri væri bara bónus. Það er það sama og ég sagði í fyrri ræðu minni um landgræðsluna, að alvarleiki málsins er það mikill að hið opinbera verður að tryggja ákveðinn grunn hvað sem tautar og raular.

Það kom líka fram í þessum samtölum að Skógræktin setur stundum spurningarmerki við þetta ákvæði, þ.e. í 10. gr. um lögbýli, skógrækt á lögbýlum. Hún er auðvitað hugsuð þannig að það séu þá bændur sem stundi hana og fái styrk til þess, en það ber eitthvað á því, ég þori ekki að segja hversu mikið og mig vantar tölur um það, að fólk úr þéttbýlinu, frístundafólk, fólk sem kaupir lögbýli og notar sem sumarbústaði, fái þessa styrki að einhverju leyti og stundi skógrækt. Þá er spurningin hvort þessi fullyrðing þurfi ekki skoðun, alla vega í hve miklum mæli þetta er, og hvort það sé einhvern veginn hægt að styrkja þá hugmynd að það séu fyrst og fremst bændur sem stundi skógrækt á lögbýlum.

Mér skilst að það fari 244 millj. kr. í bændaskóga á næstu árum. Þar rúmast ekki sú milljarðaaukning sem hæstv. umhverfisráðherra nefndi áðan að hefði farið í umhverfismálin, vegna þess að við höfum margoft bent á það að stór hluti af því er byggingar og fjárfestingar.

Það er mjög áhugavert að velta því fyrir sér að það eru rúmlega 600 bændur sem stunda skógrækt, bændaskógar. Þar sem best hefur gengið er skógræktin komið á það góðan rekspöl, bæði með landgræðsluaðgerðum og skógrækt, að það er hægt að beita í skógunum. Það eru bændur í Öxarfirði sem beita bæði nautgripum og sauðfé í skógi, þannig að það lítur út tilsýndar eins og maður hefði hugsað sér að væri hér á landnámstíð þegar húsdýrin gengu nánast sjálfala í skógum og gróðurlendi. Það er hægt að ná mjög langt í þessu og um að gera að styðja mjög vel við það.

Skógrækt sem uppgræðsla er gríðarlega mikilvæg vegna þess að það hefur komið í ljós að ekkert gróðurlendi stenst álag, hvort sem er af völdum flóða, öskufalls eða annarra náttúruatburða, eins vel og íslenskt kjarr, íslenskur birkiskógur, víðir og sá hágróður sem fylgir skógi. Því meira sem er af skógi í landinu, þeim mun öflugri vistkerfi erum við að fóstra, ég tala nú ekki allt í kringum skóginn líka vegna þess að venjulega þar sem skógur nær sér á strik verður líka til mólendi allt í kringum skóginn.

Nú er það þannig komið að þessir 1.000–1.500 ferkílómetrar af kjarri og birkiskógi á Íslandi margfaldast tiltölulega hægt, vegna þess að ekki eru settir nógir fjármunir í skógræktina hvaða sem þeir koma. Það er mjög gaman að sjá árangur Hekluskóga, árangur þess starfs sem er að fara í gang í nágrenni við Þorlákshöfn, en það þarf að herða starfið mjög svo og margfalda að öllu umfangi.

Það kom líka fram í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar að sjálfsuppgræðsla er orðin veigamikill þáttur í uppgræðslu birkiskóga á Íslandi. Það þarf ekki annað en að fara um Skeiðarársand eða út í Geldinganes við Reykjavík til að sjá hversu hratt skóglendið eykst þar sem beitarfriðun er eða hóflegt beitarálag. Það er ákaflega gleðilegt.

Þegar þetta er svo aftur borið saman við skógrækt til timburnytja skilst mér að fyrir langalöngu, þegar Hákon Bjarnason var hér skógræktarstjóri, hafi menn reiknað út að það þyrfti 600 ferkílómetra af öldnum skógi sem væri endurnýjaður jafnóðum eftir að trén væru felld til að standa undir timburnotkun Íslendinga á þeim tíma, sennilega fyrir nokkrum áratugum. Nú hef ég ekki nýjar tölur, en ég sé fyrir mér skóg sem er 20 sinnum 30 kílómetrar. Það er ekki stórt og ef því er deilt á marga landshluta erum við ekki að tala um nein gríðarsvæði sem hverfa undir barrskóga á Íslandi þó að þetta yrði einhvern tíma að veruleika, mörghundruð ferkílómetrar af nytjaskógi. Þá er auðvitað mjög mikilvægt að velja rétt land til þeirrar skógræktar. Mér finnst mikilvægt að þetta komi fram til að menn hafi stærðargráðuna.

Varðandi stóra þáttinn í skógræktinni, bæði náttúruskógana og nytjaskógana, þ.e. plöntuframleiðsluna, skilst mér enn fremur í samtölum við það ágæta fólk í Skógræktinni að plöntuframleiðsla hafi látið mjög á sjá og þær berjist í bökkum þær fáu stöðvar sem framleiða orðið. Nú er engin ríkisstöð lengur til, þetta eru einkastöðvar og þær eiga mjög erfitt með að standa undir framleiðslu á því sem þarf vegna þess hversu lítil skógræktin er. Það er sem sagt mikið verk að vinna í sátt við umhverfissjónarmið og náttúruna, svo að ekki sé minnst á sjálfbæra þróun.

Það er mjög athyglisvert ef maður hugsar út í sjálfbæra þróun og man eftir þremur meginstoðum hennar, hversu skógrækt fellur mjög vel að þeim markmiðum, þ.e. landgræðslu, betrumbótum á vistkerfum, betrumbótum á náttúrunni, skógrækt sem styður undir samfélögin þar sem hún er stunduð og síðan skógrækt sem gefur einhvern arð af sér. Það er svo augljóst mál að sjálfbær þróun á Íslandi tekur skref fram á við í hvert skipti sem við bætum í skógræktina.

Þetta frumvarp bíður umsagnar og vinnu hæstv. umhverfis- og samgöngunefndar. Af því að ég sit þar mun ég fagna því að fá það til umsagnar.

Mig langar í lokin að minnast á það sem hæstv. Steingrímur J. Sigfússon minntist á, þ.e. lagabreytingar og hugsanlegar frekari stofnanabreytingar. Ég ræddi það einmitt í tengslum við ræðu hér í fyrri viku um Landgræðsluna að ég hef gerst talsmaður þess að auðlindastofnun verði komið á fót þar sem landgræðsla, friðlýst svæði, þjóðgarðar og fleira yrði vistað. Sá kaleikur yrði þá tekinn frá Umhverfisstofnun og hún myndi sinna eftirlits- og stjórnsýsluhlutverki sínu, sem hún rækir að stórum hluta en á alveg fullt í fangi með. Það væri til bóta ef þessar tvær stofnanir yrðu til, Auðlindastofnun annars vegar og Umhverfisstofnun með breyttu fyrirkomulagi hins vegar. Mig langar að spyrja hæstv. umhverfisráðherra hvað henni finnst um þær pælingar, sem eru ekki nýjar af nálinni og bárust fyrirrennara hennar á minnisblaði frá t.d. Sveini Runólfssyni, fyrrverandi landgræðslustjóra. Það er alveg óþarfi að hafa áhyggjur af því að svona stofnun yrði endilega Reykjavíkurstofnun vegna þess að Umhverfisstofnun og fleiri stofnanir eru nú þegar með landshlutaskrifstofur og gætu þess vegna haft höfuðstöðvar sínar utan Reykjavíkur. Allra byggðasjónarmiða gæti því verið mjög vel gætt þótt svona stofnun yrði til.

Skógrækt hefur stundum verið talin framandi af mörgum á Íslandi. Menn horfa á landið eins og það er og gleyma því að hér var einhvers konar trjágróður á 20–30% lands fyrir svo sem rúmum 1.000 árum. Menn horfa á skóglaust land og jafnvel auðnir og halda að þetta sé náttúrulegt ástand Íslands, sem það er auðvitað ekki. Ég hef stundum bent á það að við höfum hér komið og breytt skóglendi og votlendi o.s.frv. í tún með innlendum og erlendum tegundum. Því skyldum við ekki breyta landsvæðum í skóg með innlendum og erlendum tegundum jafnframt? Við lifum hér 300–400 þús. manns fljótlega og höfum breytt ásýnd landsins og munum halda áfram að breyta ásýnd landsins. Endurheimt landgæða þýðir ekki það að við séum að endurheimta landið eins og það var fyrir 1.000–1.200 árum.

Svo alveg í blálokin. Það er líka mikilvægt að muna eftir því að hægt er að binda koldíoxíð eða koltvísýring með niðurdælingu, eins og kom fram áðan, en það er líka önnur leið til þess að nýta lofttegundina, hvort sem hún kemur frá jarðhitasvæðum eða orkufrekum iðnaði, og það er með því að framleiða úr henni bæði metan og metanól. Metanólið er framleitt nú þegar. Metanið hefur Orkuveita Reykjavíkur í hyggju að búa til úr vetni og koltvíoxíði sem fyrirfinnst í jarðhitakerfunum þar upp frá, vetni er reyndar framleitt með rafgreiningu. En þar erum við komin með mikilvæga viðbót við innlenda eldsneytisframleiðslu, sem er jú einn lykillinn í loftslagsmálum Íslands, ekkert síður en skógrækt og landgræðsla.