146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum.

505. mál
[18:47]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum. Frumvarpið er liður í aðgerðum stjórnvalda til losunar fjármagnshafta og eru í því lagðar til rýmri heimildir til úttektar af þeim reikningum sem kveðið er á um í lögunum. Til upprifjunar er í lögunum kveðið á um að svokallaðar aflandskrónueignir skuli varðveittar á reikningum sem háðir eru sérstökum takmörkunum auk þess sem rafrænt skráðar aflandskrónueignir skuli vera á sérstökum umsýslureikningum hjá Seðlabanka Íslands. Var þetta gert svo mögulegt væri að stíga næstu skref við losun fjármagnshafta og koma á frjálsum milliríkjaviðskiptum með íslenskar krónur á ný án þess að fjármálastöðugleika eða stöðugleika í gengis- og peningamálum yrði ógnað.

Þessi lög voru samþykkt á Alþingi í maí á síðasta ári. Síðan hafa stór skref verið stigin í átt að fullri losun fjármagnshafta eins og kunnugt er, nú síðast í mars á þessu ári þegar meginþorri þeirra var afnumin. Megintilefni þess að frumvarpið er lagt fram er að í kjölfar heimsóknar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í vor kom fram ábending um að 11. gr. laga nr. 37/2016, sem fjallar um almennar úttektarheimildir af lokuðum reikningum, er ekki í samræmi við stofnskrá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þar sem undir þær úttektarheimildir falla ekki ákveðnar gjaldgreiðslur sem flokkast undir viðskiptajöfnuð. Einnig kom fram af hálfu sjóðsins um þessi mál að aðstæður fyrir þeirri undanþágu sem Ísland hefur notið hvað þetta varðar hafi breyst í kjölfar batnandi efnahagsástands hér á landi og aðgerða stjórnvalda til losunar fjármagnshafta. Að óbreyttu myndi sjóðurinn gera athugasemd við þessi atriði á fundi sínum í júní.

Breytingarnar sem hér eru kynntar felast í fyrsta lagi í því að almenn úttektarheimild í 11. gr. laganna verði rýmkuð og auk þeirra heimilda sem fyrir eru verði heimilað að taka út samningsbundnar afborganir höfuðstóls lánaskuldbindinga fyrir lokagjalddaga og verðbætur þeirra. Einnig er lagt til að úttektir samkvæmt ákvæðinu verði ekki lengur háðar staðfestingu Seðlabanka Íslands heldur nægi að tilkynna bankanum um þær innan fimm daga frá úttekt.

Í öðru lagi er lagt til að úttektarheimild einstaklinga í 12. gr. laganna verði hækkuð verulega eða úr 1 milljón króna í 100 milljónir króna.

Að mati Seðlabankans munu þessar breytingar ekki hafa mikil áhrif á útstreymi gjaldeyris en fjárhæðirnar sem samkvæmt frumvarpinu er lagt til að verði heimilt að flytja er talið að nemi innan við milljarði króna eða minna en 0,5% af snjóhengjunni svonefndu eins og hún var í byrjun mars.

Virðulegi forseti. Það skref sem lagt er til að stigið verði í frumvarpinu er liður í að leysa í varfærnum en ákveðnum skrefum þann vanda sem svokallaðar aflandskrónueignir hafa skapað. Auk þeirra jákvæðu áhrifa sem frumvarpið hefur á aflandskrónueigendur myndi samþykkt þess hafa þau áhrif að Ísland þokaðist nær því að uppfylla að öllu leyti og án undanþágu þær alþjóðlegu skuldbindingar sem landið hefur undirgengist og varða fjármagnshreyfingar milli landa. Þannig má ætla að samþykkt frumvarpsins geti stuðlað að jákvæðri niðurstöðu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum nú strax í sumar hvað þær skuldbindingar varða sem falla undir viðskiptajöfnuð og byggjast á stofnskrá sjóðsins sem Ísland hefur undirgengist.

Ég þakka hv. þingmönnum allra flokka sem greiddu fyrir afbrigðum og hafa unnið að þessu máli þannig að það fengi skjótan framgang í þinginu. Það er seint komið fram vegna þess hve stutt er síðan ábendingar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins komu fram um að ákvæði íslenskra laga væri ekki í samræmi við stofnskrá sjóðsins. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hæstv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari.