146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

um fundarstjórn.

[19:29]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það þarf dálitlar tilfæringar til að koma málum á dagskrá með afbrigðum. Það er raunar þannig, okkur öllum til upprifjunar, að ráðherra hefur þann háttinn á að hann hefur samráð við forystufólk í þinginu og stjórnarandstöðuna til að koma máli á dagskrá með afbrigðum. Það gerðist í þessu máli. Ég átti ágætissamtal við hæstv. ráðherra, Þorstein Víglundsson, um hversu mikilvægt þetta mál væri og mikilvægt að ræða það og koma því á dagskrá. Í ljósi þess samþykktum við afbrigði í dag. Það er ekkert annað en dónaskapur gagnvart þinginu að fara í gegnum þetta ferli allt saman og ætla sér svo þá framkomu við þá sem veita afbrigðin að þeir hinir sömu sitji og standi eins og viðkomandi ráðherra hentar. Ég segi, virðulegi forseti: Í fyrsta lagi er ég mjög hugsi yfir afbrigðum almennt hér eftir (Forseti hringir.) og hvaða forsendur þurfi að uppfylla til að þau séu veitt. Og síðan legg ég áherslu á að hér verði gert hlé á fundinum þar til ráðherra eða staðgengill hans geti mælt fyrir málinu.