146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

um fundarstjórn.

[19:43]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það verður að viðurkennast að ég hef aldrei upplifað annað eins fúsk, annan eins losarabrag, aðra eins vanvirðingu við þingið, og með núverandi ríkisstjórn sem situr hér í krafti minni hluta atkvæða landsmanna. Ég fer fram á að þessum fundi verði slitið tafarlaust. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Ef þetta mál er svona brýnt og ráðherrann, sem óskaði eftir að við myndum greiða því leið getur síðan ekki komið og svarað þingmönnum ef þeir hafa einhverjar spurningar, ætlar síðan að senda staðgengil, hæstv. ráðherra, sem er væntanlega ekki eins vel inni í málinu, geri ég ráð fyrir — ef hægt er að senda bara einhverja ráðherra, af hverju svarar þá ekki formaður Viðreisnar, hæstv. fjármálaráðherra, fyrir málið og mælir fyrir því núna? Ef það er ekki hægt (Forseti hringir.) legg ég til að fundi verði tafarlaust slitið.