146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

um fundarstjórn.

[19:47]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Frú forseti. Saman vinna margar hendur létt verk. Þess vegna er lán í óláni að hægri stjórnirnar hafa fjölgað ráðherrum upp í að vera 11 talsins þannig að þeir geta hlaupið hver í annars skarð. Þess vegna ætlaði hæstv. ráðherra Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir að mæla hér fyrir málum hæstv. ráðherra Þorsteins Víglundssonar vegna þess að ráðherra jafnréttismála komst ekki í hús. Nú háttar svo til að við greiddum götu þessa máls í einhverri blekkingu. Ráðherrann sem átti að leysa af komst ekki. Frú forseti, en þá eru níu eftir. Níu ráðherrar sem geta allt eins komið í hús og staðið fyrir þessum málum. Hvar eru þeir? Af hverju erum við ekki farin að ræða þau mál sem þingheimur var blekktur til að setja á dagskrá hér fyrr í dag? Frú forseti, ég krefst þess að þegar í stað verði gerð bót á og ráðherrar dregnir í hús ellegar verði fundi slitið.