146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

stytting biðlista.

[15:09]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég fagna því að hæstv. ráðherra lýsi því hér að hann sé sammála því að það sem mestu máli skipti til að stytta biðlista sé spurningin um fjármagn og að hann sé sáttur við þá aðferðafræði sem viðhöfð hafi verið til að styrkja þau þrjú sjúkrahús sem hæstv. ráðherra nefndi, að sú aðferðafræði hafi skilað árangri, þ.e. að styrkja hið opinbera kerfi til þess að stytta biðlistana, stytta bið fólks eftir aðgerðum.

Það er umhugsunarefni að þessi umræða hefur að undanförnu fyrst og fremst snúist um rekstrarform, aðkomu einkaaðila að aðgerðum til þess að stytta biðlista. Um það hefur verið tekist á hér í þingsal en líka í opinberri umræðu annars staðar.

Viðbrögð hæstv. ráðherra hafa verið þau að það þurfi að endurskoða lögin um heilbrigðisþjónustu. Ég vil ítreka þær spurningar sem ég kom með hér áðan: Telur hæstv. ráðherra að hann hafi ekki nægjanlegar heimildir til þess að setja skýran ramma um sérhæfða sjúkrahúsþjónustu? (Forseti hringir.) Hverju nákvæmlega telur hann að þurfi að breyta í lögum um heilbrigðisþjónustu?