146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

kaup vogunarsjóðs á hlut í Arion banka.

[15:24]
Horfa

Lilja Alfreðsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Vogunarsjóðurinn Och-Ziff er í hópi fjárfesta sem keypt hafa í Arion banka. Och-Ziff er skráð fyrir 6,6% hlut í Arion banka. Í september á síðasta ári greiddi Och-Ziff að jafnvirði um 47 milljarða kr. sekt eftir að verðbréfaeftirlitið í Bandaríkjunum varpaði ljósi á mútugreiðslur dótturfélags sjóðsins til háttsettra embættismanna í Afríku.

Þetta eru einar hæstu sektargreiðslur sem vogunarsjóður hefur greitt vegna mútumáls í Bandaríkjunum. Að auki má nefna að lánshæfisfyrirtækið Standard & Poor's hefur lækkað lánshæfiseinkunn Och-Ziff um flokk og er það komið í svokallaðan ruslflokk. Fram kemur í máli sérfræðings S&P að framtíðarhorfur sjóðsins séu neikvæðar, reksturinn fari versnandi og ólíklegt þyki að félagið geti staðið undir fjárfestingum sínum.

Því langar mig til að spyrja hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra: Telur hann enn jákvætt að vogunarsjóðurinn Och-Ziff sé fjárfestir í kerfislega mikilvægum banka á Íslandi í ljósi þessara mútumála?