146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

mannréttindasjónarmið í íslenskri löggjöf o.fl.

304. mál
[17:43]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Rósa Björk Brynjólfsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin í sinni ræðu og öðrum þingmönnum sem tóku þátt. Mér finnst hins vegar afar leitt að heyra að rannsókn á stöðu hælisleitenda og flóttamanna út frá þessum sjónarmiðum sé ekki komin lengra en raun ber vitni. Ég minni á að það er afar brýnt að ráðast í raunverulegar aðgerðir til að bæta úr stöðunni og fara í alvöruframkvæmdir vegna þess að í raun og veru má segja að fólk í þessum hópum, konur og börn, hinsegin fólk og transfólk, sé tvöfaldir minnihlutahópar sem búa við mikla jaðarsetningu, mjög viðkvæmir hópar.

Ég velti líka fyrir mér þegar við erum að tala um þörfina fyrir raunverulegar aðgerðir hvort sú kostnaðaráætlun sem fylgir framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum fyrir árin 2016–2019 sé í raun fullnægjandi þegar kemur að þessum lið, 12. lið, um greiningu á stöðu flóttamanna og hælisleitenda út frá kyni og jafnrétti kynja. Þar kemur fram að kostnaðaráætlunin er 3,5 millj. kr. Ég velti fyrir mér hvort þetta sé nægjanlegt til að ráðast í þær brýnu aðgerðir sem þörf er á.

Hæstv. ráðherra vísaði í ákveðin atriði í útlendingalögunum sem er verið að fylgja eftir og önnur atriði sem finna má í löggjöfinni til að vinna að þessum jafnréttis- og mannréttindasjónarmiðum og ég hvet hæstv. ráðherra til góðra verka (Forseti hringir.) og brýni hana, hennar ráðuneyti og hennar starfsfólk til góðra verka því að þörfin er svo sannarlega brýn til að bæta hag þessa fólks.