146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

skipulagslög og byggingarreglugerð.

368. mál
[19:01]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og stóðst ekki freistinguna að blanda mér aðeins inn í þetta þar sem ég átti samtal við hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur árið 2012 um byggingarreglugerðina og skipulagslögin og þær miklu breytingar sem farið var í á laga- og reglugerðarumhverfinu á þeim tíma. Þá var markaðurinn eða byggingariðnaðurinn nánast botnfrosinn.

Ég fagna því sem hæstv. ráðherra segir hér. Það er mikilvægt að fara yfir skipulagsferlið. Ég vona svo sannarlega að við förum fljótlega að sjá tillögu hvað það varðar. Þetta er hins vegar verkefni sem heyrir undir annan ráðherra en hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra, það heyrir undir umhverfis- og auðlindaráðherra. Það sem ráðherrann gæti hins vegar komið með og hefur boðað að koma með eru lög sem snúa að húsnæðisáætlunum sveitarfélaganna. Þar myndi ég vilja hveta ráðherrann til þess að horfa til fyrirmynda í Bretlandi um það hvernig er hægt að tengja húsnæðisáætlanirnar við ákveðnar kvaðir eða skyldur (Forseti hringir.) sveitarfélaga til að tryggja nægt framboð á lóðum (Forseti hringir.) fyrir þá íbúaþróun sem fyrirsjáanleg er í viðkomandi sveitarfélögum, og ekki bara lóðum, heldur (Forseti hringir.) fjölbreyttu úrvali af lóðum, bæði á þéttingarsvæði og í útjaðri byggðar.