146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

störf þingsins.

[13:41]
Horfa

Iðunn Garðarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar til að ræða fjármögnun háskólakerfisins. Hæstv. forsætisráðherra Bjarni Benediktsson lýsti því í stefnuræðu sinni á þingi í janúar sl. að menntun væri lykillinn að framtíðinni og til þess að ná árangri í nýsköpun þyrfti að bæta menntun. En hvað hefur ríkisstjórnin gert til að styrkja háskólakerfið? Vísinda- og tækniráð setti sér það markmið árið 2014 að framlög til háskólanáms hér á landi myndu færast nær því sem við þekkjum í nágrannalöndum okkar, þ.e. annars vegar OECD-meðaltalinu og hins vegar meðaltalsframlögum á Norðurlöndum. Það markmið átti að nást fyrir lok árs 2016. Markmiði Vísinda- og tækniráðs fyrir sl. ár hefur þó ekki enn verið náð og eins og staðan er núna vantar um 8 milljarða í háskólakerfið svo að það náist.

Í vikunni hélt rektor Háskóla Íslands því fram að skólinn ætti í erfiðleikum með að ráða inn nýja kennara í sumum deildum skólans vegna fjárskorts. Háskólinn hafi t.d. ekki á undanförnum árum getað ráðið inn kennara í íslensku og jarðvísindum þegar prófessorar láta af störfum. Staðan er orðin svo slæm að fjársveltið bitnar á kennslu og gæðum náms við skólann. Íslenska og jarðvísindi eru greinar sem báðar hafa sérstaka þýðingu fyrir íslenska menningu og sögu og eru ekki kenndar í öðrum háskólum hérlendis en Háskóla Íslands.

Ríkisháskólar sem standa styrkum fótum eru best til þess fallnir að tryggja öllum aðgang að háskólanámi, óháð búsetu, efnahag eða félagslegri stöðu. Slíkt samfélag er því jafnara samfélag. Nú þurfum við að ákveða okkur. Viljum við bjóða upp á háskólanám í ríkisháskóla sem er samkeppnishæft á alþjóðavettvangi? Eða viljum við fjársvelta ríkisháskólana með þeim afleiðingum að ungt fólk á Íslandi hafi ekki jafnan aðgang að háskólanámi sem stenst alþjóðlegar kröfur?