146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

dómstólar og breytingalög nr. 49/2016.

481. mál
[15:11]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þessa skýringu. Það er gott að fá það á hreint. Það er kannski helst til óljóst þegar talað er um ólokin mál Hæstaréttar, á hvaða stigi þau eru þegar þau flytjast yfir á þetta nýja dómstig.

Mig langar að fá að ítreka spurningar mínar um gagnaskiptakerfið og þetta málaskrárkerfi dómstólanna sem setja á upp, hvort það sé fyrirhugað og raunverulega áætlað að kerfið verði tilbúið til notkunar 2018 þegar hið nýja dómstig tekur við og þegar fara á í þessi miklu upplýsingaskipti á milli þriggja dómstiga allt í allt. Ég fæ ekki lesið út úr fjármálaáætluninni að nægilegt fjármagn sé sett í endurnýjun búnaðar hjá héraðsdómunum og heldur ekki gagnvart ýmsum verkefnum sem Hæstiréttur og héraðsdómstólarnir hafa verið að biðja um, en það er kannski svolítið utan efnisins.

Ég hef mestan áhuga og áhyggjur af þessu málaskrárkerfi, að það verði ekki komið í almennilegt form þegar hið nýja dómstig tekur við. Því langar mig að spyrja í því samhengi: Á hvaða stig er sú vinna komin? Er verkefnið nægilega fjármagnað til þess að kerfið verði tilbúið 2018.