146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

jarðgöng undir Vaðlaheiði.

524. mál
[16:34]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þá málefnalegu umræðu sem hér hefur verið og einnig vil ég þakka þingheimi fyrir það að hafa veitt afbrigði þannig að hægt væri að flytja þetta mikilvæga mál sem ég vænti þess að fái hraða afgreiðslu í þingnefnd og við náum að ljúka fyrir vorið.

Ég vil víkja að einu atriði sem kom fram í máli hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar, en skilja mátti þingmanninn sem svo að ríkinu væri óheimilt að veita viðbótarlán nema hægt væri að sýna fram á að lánsfjárþörfina væri hægt að uppfylla á almennum markaði samkvæmt lögum um ríkisábyrgðir. Lögin segja aftur á móti, með leyfi forseta:

„Ríkissjóði er óheimilt að takast á hendur ríkisábyrgð nema að fullnægðum eftirfarandi skilyrðum:“

Í öðru skilyrði segir:

„Ef lánsfjárþörfina er ekki hægt að uppfylla á almennum lánamarkaði og sýnt þykir að starfsemin sé hagkvæm.“

Ríkið má ekki lána nema ekki sé hægt að uppfylla lánsþörf á almennum lánamarkaði, þannig að hv. þingmaður hefur lesið þetta ákvæði öfugt.

Ég vildi koma því sjónarmiði á framfæri áður en málinu væri vísað til nefndarinnar.

Að svo mæltu vil ég aftur þakka þingmönnum fyrir málefnalega umræðu og vænti þess að málið fái farsælar lyktir.