146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

meðferð sakamála.

374. mál
[17:18]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Pawel Bartoszek) (V):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti allsherjar- og menntamálanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008, með síðari breytingum (rafræn undirritun sakbornings).

Um hvað snýst þetta mál? Þetta mál snýst um það að hægt verði að ljúka ákveðnum málum með rafrænni undirskrift sem fer þá fram í svokölluðum ipödum eða spjaldtölvum, oft inni í lögreglubíl.

Á þetta við um öll mál? Nei, þetta á við um tiltölulega einföld mál sem ljúka má með játningu á staðnum og sekt.

Af hverju er verið að gera þetta? Það er verið að gera þetta til að auka skilvirkni í störfum lögreglu og minnka líkur á því að menn geri mistök við útfyllingu og tvíverknaði við að við setjum þá vinnu aftur af stað.

Ég ætla lauslega að gera grein fyrir því nefndaráliti sem hér liggur fyrir frá allsherjar- og menntamálanefnd.

Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund fulltrúa frá dómsmálaráðuneyti annars vegar og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti hins vegar og svo frá ríkislögreglustjóra. Þá barst umsögn frá félagi yfirlögregluþjóna sem var jákvæð í garð frumvarpsins. Þess ber einnig að geta að umsögn barst frá Persónuvernd í gær þar sem gerðar voru athugasemdir við tvær greinar, tvö atriði í frumvarpinu. Ég ætla að gera grein fyrir þeim og bregðast við þeim hér í ræðustól.

Í fyrsta lagi lagði Persónuvernd það til að í stað heimildar ráðherra til að setja fram reglugerð um framkvæmd rafrænnar undirritunar og afhendingar skýrslu yrði það skylda ráðherra að gera slíkt. Einhverjir nefndarmenn hafa rætt við ráðherra og fyrir liggur sá skýri vilji um að setja slíka reglugerð, þannig að við höfum ekki ástæðu til að ætla annað en að þessi heimild verði nýtt.

Í öðru lagi gerði Persónuvernd það að tillögu sinni að hér kæmi fram að hafi skýrsla verið gerð sé heimilt að afhenda hana með rafrænum hætti. Þá vildi Persónuvernd draga það skýrt fram að átt væri við að hún yrði afhent sakborningi með rafrænum hætti. Í greinargerð kemur mjög skýr ásetningur fram. Þar segir:

„Með rafrænni undirritun sakbornings í skilningi greinarinnar er meðal annars átt við undirritun á þar til gerðan skjá eða með rafrænum skilríkjum. Sé um að ræða slíka rafræna undirritun er gert ráð fyrir að sakborningi verði afhent skýrsla vegna þeirra brota er hér um ræðir á rafrænan hátt, þ.e. með tölvupósti, rafrænu skjali í heimabanka eða öðrum sambærilegum, tryggum og sannanlegum hætti.“

Sá skilningur liggur alla vega ljós fyrir að af þessu má ráða afhendingu til sakbornings.

Svo að ég fari áfram í nefndarálitið þá eru með frumvarpinu lagðar til breytingar á lögum nr. 88/2008, um meðferð sakamála, sem auka skilvirkni við afgreiðslu smærri mála hjá lögreglu með því að einfalda framkvæmd og auka þannig afköst og hraða við meðferð mála.

Með frumvarpinu er lagt til að lögreglu verði heimilt að láta sakborning undirrita skýrslu rafrænt á vettvangi sem og að afhenda megi lögregluskýrslu með rafrænum hætti. Að auki er lagt til að ráðherra fái heimild til að kveða nánar á um framkvæmd rafrænnar undirritunar og afhendingar skýrslu í reglugerð.

Á fundi nefndarinnar var farið yfir núverandi verklag í smærri málum, þ.e. í málum þar sem viðurlögin eru sekt og sakborningur gengst við broti, og hvernig fyrirhuguð breyting muni hafa áhrif til einföldunar á það. Gert er ráð fyrir að lögreglumenn notist við spjaldtölvur við afgreiðslu þessara mála. Nefndin tekur undir sjónarmið um að umrædd lagabreyting auki skilvirkni og sé til einföldunar.

Nefndin fjallaði einnig um öryggi fjarskipta og persónuverndarsjónarmið. Fram kom að fjarskiptin væru dulkóðuð. Öryggisúttekt hefur verið gerð en nefndin telur mikilvægt að einnig verði haft samráð við Persónuvernd. Lögð er áhersla á að slíkt verklag uppfylli öryggis- og persónuverndarsjónarmið.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Undir þetta rita Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður, Pawel Bartoszek, framsögumaður, Nichole Leigh Mosty, Vilhjálmur Árnason, Björn Leví Gunnarsson, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Valgerður Gunnarsdóttir, Andrés Ingi Jónsson og Eygló Harðardóttir.