146. löggjafarþing — 67. fundur,  22. maí 2017.

Brexit og áhrifin á Ísland.

[10:48]
Horfa

Lilja Alfreðsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Rósu Björk Brynjólfsdóttur fyrir að vekja máls á þessu stóra utanríkismáli okkar og einnig hæstv. utanríkisráðherra fyrir innlegg hans. Það er alveg ljóst að þetta er eitt stærsta hagsmunamál þjóðarinnar er varðar utanríkismál og við höfum farið yfir það í þingsal. Eins og utanríkisráðherra nefndi eru einkum þrjár sviðsmyndir sem við þurfum að vinna að. Í fyrsta lagi er það einhliða samningur á milli þessar tveggja ríkja, í öðru lagi hugsanlega tvíhliða samningur við EFTA-ríkin og svo í þriðja lagi að EES-ríkin kæmu inn í útgöngusamning.

Mig langar að spyrja utanríkisráðherra í framhaldi af því hvort búið sé að ganga frá efnahagsgreiningu til að meta hvaða sviðsmynd kemur best út fyrir bæði þessi ríki og sér í lagi þjóðarbúið okkar. Í öðru lagi hvort ráðuneytin hafi farið yfir EES-samninginn og forgangsraðað þar. Það kann að vera að það verði talsverð óvissa vegna þessa máls á milli Bretlands og Evrópusambandsins en þá þurfum við að vera tilbúin jafnvel með einhvern tímabundinn samning. Mig langar að spyrja utanríkisráðherra hvað það varðar.

Virðulegur forseti. Hér mætti þingmaður Viðreisnar í pontu og hún þurfti að árétta það að hún væri þingmaður Viðreisnar. Mér finnst það með algjörum ólíkindum að formaður utanríkismálanefndar komi hér í pontu og geri hreinlega lítið úr stefnu utanríkisráðherra þjóðarinnar hvað þennan málaflokk varðar. Væri ekki miklu heiðarlegra af Viðreisn að segja sig frá þessu ríkisstjórnarsamstarfi?

Mér finnst þetta óboðlegt, virðulegur forseti.